Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 19:08:29 (1990)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:08]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þetta skipti var ég ekki að ræða um misnotkun, alls ekki. Ég var að ræða um að fólk sem bætir tekjur sínar með því að afla sér menntunar eða með ýmis konar dugnaði, því er refsað. Því er refsað með því að skerða alls konar bætur sem það hefur, t.d. barnabætur. Það er ekki misnotkun, þetta þýðir að þrátt fyrir hærri tekjur sjá menn ekki eins mikið í buddunni, t.d. vegna skerðingar á bótum.

Ég var ekki að tala um misnotkun, ég var bara að tala um venjulegt fólk sem fer algjörlega að lögum og reglum en er refsað fyrir að afla sér hærri tekna. Þar nefni ég sérstaklega konur vegna þess að konur hafa í auknum mæli verið að afla sér menntunar, sem er mjög jákvætt, en það er mjög slæmt ef þær við það að hækka í launum sjá engan afrakstur af átaki sínu.

Varðandi það að jafna kjör fólks, að velferðarkerfið sé til þess, það er ekki rétt. Velferðarkerfið styður t.d. LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna, það styður fólk til náms til þess að það geti aflað sér meiri tekna en verkafólk, þ.e. að auka tekjumuninn. Og mér finnst það bara allt í lagi.