Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 20:43:17 (2005)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:43]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Stefna ríkisstjórnarflokkanna í skattamálum er nú að koma til framkvæmda af fullum krafti. Því hljótum við að fagna. Í síðustu kosningum snerist kosningabaráttan að stórum hluta um skattalækkunaráform hjá öllum flokkum öðrum en Vinstri grænum. Við hljótum því að fagna því að hér er komið hið ágæta plan um hvernig við ætlum að standa að þessum skattalækkunum á árunum 2005–2007.

Skattalækkanirnar eru eðlilegt framhald af öðrum skattalagabreytingum undanfarinna ára, lagfæringum á skattkerfinu og eðlilegum breytingum. Þær eru eðlilegt framhald af þeim góða hagvexti sem við höfum skapað og auknum þjóðartekjum.

Íslendingar eru dugleg þjóð og vinnusöm. Því er mikilvægt að horft sé til þess að veita vinnandi fólki eðlilegt starfsumhverfi á vinnumarkaði á Íslandi. Það er auðvitað nánast kraftaverk að svo fámennri þjóð skuli hafa tekist að byggja upp slíkt velferðarþjóðfélag hér á Íslandi sem raun ber vitni.

Því er horft til þess í stefnu ríkisstjórnarflokkanna að koma til móts við hinn venjulega vinnandi mann á Íslandi og hina venjulegu vinnandi fjölskyldu. Það er sérstaklega horft til þeirra sem eru tekjulægri í þeim hópi. Einnig er horft sérstaklega til fjölskyldufólks og barnafólks. Það er stefna okkar að Ísland sé fjölskylduvænt. Það er okkur öllum til hagsbóta. Það sýnir sig í fleiru en skattalögum. Það sýnir sig í heilbrigðis- og skólakerfinu og það sýnir sig í fæðingar- og feðraorlofi.

Það er vaxandi vandamál hins vestræna heims að dregið hefur úr barneignum og þjóðfélagsþegnum fækkar. Þeim fækkar sem standa undir efnahagskerfinu og sjá um þá sem eru sjúkir og aldraðir. Við erum nokkrir þingmenn nýkomnir frá Japan þar sem við ræddum við japanska þingmenn og það kom mjög skýrt fram hjá þeim að þessi iðnvædda þjóð og þessi stórþjóð með gífurlega stórt og umfangsmikið hagkerfi hefur miklar áhyggjur af fækkun þjóðarinnar. Það kom fram hjá ýmsum þeim þingmönnum sem við ræddum við að það gæti einmitt stafað af því að þjóðfélagið væri ekki nægilega fjölskylduvænt. Ég heyrði það á þingmönnum að þeir vildu virkilega taka til hendinni í þeim efnum.

Það er mikilsvert að þjóðfélagið sé fjölskylduvænt og að við séum stanslaust með það í huga að reyna að bæta þar úr. Það skiptir okkur gífurlega miklu máli að reka fjölskylduvæna stefnu, ekki síst þegar við horfum til framtíðar. Hvernig viljum við að íslenskt samfélag þróist og hvernig á íslenskt samfélag að standast til framtíðar? Því er mikilvægt að draga úr álögum á lágtekju-, millitekju- og fjölskyldufólk og því er nú sérstaklega horft til þeirra hluta í þeim skattalagabreytingum sem við erum að fjalla um hér í dag.

Það sem skiptir hag almennings mestu er að hagstjórnin í landinu sé í traustum og öruggum höndum. Svo hefur verið á undanförnum árum. Ríkisstjórninni, undir traustri forustu Sjálfstæðisflokksins allt frá árinu 1991, hefur tekist að gera íslenska þjóð að einni mestu velferðarþjóð heims. Hin trausta hagstjórn gerir það kleift, ásamt því hversu vel hefur tekist að stækka þjóðarkökuna, að nú er hægt að lækka skatta. Það að tilkynna nú hvernig þær skattalækkanir dreifast á árin 2005–2007 er einmitt til vitnis um þessa traustu hagstjórn. Slíkar ákvarðanir stuðla að stöðugleika sem er svo mikilvægur fyrir hagkerfið og auðvitað launafólk í landinu og á þeim forsendum ákveðum við að tilkynna það með þetta löngum fyrirvara hvernig þessar skattalækkanir eiga að koma fram. Þetta ásamt langtímaáætlun í ríkisfjármálum stuðlar allt að stöðugleika sem er okkur öllum svo mikilvægur. Langtímaáætlunin í ríkisfjármálum gerir einmitt ráð fyrir því að hagvöxturinn haldi áfram og að eðlilegu aðhaldi verði beitt þannig að vöxtur í ríkisfjármálum fari ekki upp úr öllu valdi.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um aðhald hér í dag. Sumir hafa jafnvel haldið því fram að aðhald sé það sama og niðurskurður. Því fer fjarri, herra forseti. Því fer svo sannarlega fjarri. Aðhald er ekki það sama og niðurskurður. Það er hins vegar skylda allra þeirra sem bera ábyrgð á opinberum rekstri að beita aðhaldi. Aðhald er af hinu góða. Við eigum að nýta skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga, ef því skiptir, þannig að þær nýtist sem best til þjónustu við borgarana. Aðhald og bættur rekstur á því að vera stöðugt viðfangsefni ríkisforstjóra og ég er satt að segja hissa á því hvernig hv. þingmenn hér í salnum amast við auknu aðhaldi í opinberum rekstri. Það hlýtur að teljast eitt af því sem við eigum að hafa í huga alla tíð.

Hæstv. forseti. Um hvað snúast þeir 22 milljarðar sem á að lækka skatta um á næstu þremur árum? Það sem gagnast öllum kemur fram í 1% tekjuskattslækkun á næsta ári og þýðir 4 milljarða kr. tekjulækkun ríkissjóðs á árinu 2005. Gert er ráð fyrir að í heild verði tekjuskattslækkunin 4% fram til 2007 og verði þá í heild 16 milljarða kr. tekjulækkun fyrir ríkissjóð. En þá er jafnframt verið að lækka álögur um þessa upphæð, lækka álögur á vinnandi fólki í landinu um 16 milljarða.

Hækkun persónuafsláttar kemur jafnframt til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því að hækkun persónuafsláttar verði um 8%. Þegar tekið er tillit til annarra tekjuskerðingarmarka verður hækkun skattleysismarkanna orðin um 20%, þ.e. úr 71.270 kr. á mánuði og upp í 85.836 kr. og verður hún komin til framkvæmda á árinu 2007.

Barnabæturnar gagnast fjölskyldum og þá best tekjulágum fjölskyldum. Við horfum til þess fjölskylduvæna umhverfis sem við viljum skapa í okkar landi. Þar er um að ræða að á árunum 2006 og 2007 verði útgjöld ríkissjóðs sem þessu tilheyra 2,4 milljarðar.

Þá ber að nefna síðast en ekki síst eignarskattinn. Hann verður afnuminn. Það þýðir að tekjur ríkisins lækka um 3,5–4 milljarða. Það þýðir jafnframt að verið er að falla frá skattlagningu á eignir fólks sem því nemur. Þar er einmitt um það að ræða að eignarskattur skilar sér til þeirra sem eru tekjulágir en eiga hins vegar eignir með háan eignarskattstofn.

Það er einfaldlega ekki réttlátt að fólk greiði skatta af eignum sem það hefur ekki tekjur af — mun eðlilegra kerfi er það að menn greiði fjármagnstekjuskatt ef tekjur koma af eignunum — ég tala nú ekki um fólk sem hefur heldur engar aðrar tekjur eða mjög litlar tekjur af öðrum þáttum svo sem launatekjur eða fjármagnstekjur. Hvaða fólk er þetta? Jú, þetta er einmitt eldra fólk sem á lífssparnað sinn í húsinu sínu, í heimili sínu, en hefur kannski lágar lífeyristekjur. Þetta á einmitt við um nokkurn hluta þeirra sem nú eru á lífeyrisaldri. Því ættum við að skattpína þetta fólk frekar, þessa ágætu borgara sem hafa greitt tekjuskatt af öllum sínum launatekjum á lífsleiðinni?

Hæstv. forseti. Þetta er megininntakið í þeim skattalagabreytingum sem boðaðar eru í þessu frumvarpi. Hagstjórnin hefur verið góð og þess vegna er hægt að lækka skatta. Söngur stjórnarandstöðunnar um tímasetninguna er alltaf til staðar. Stjórnarandstaðan finnur aldrei rétta tímann til þess að fara í skattalagabreytingar.

Við höfum verið að auka kaupmáttinn í landinu. Vinnuframboðið mun aukast með þessum aðgerðum. Í stuttu máli, hæstv. forseti, þá er hér um gott mál að ræða, skattalækkanir sem munu skila sér til vinnandi fólks í landinu. Það er meginatriði.

Hæstv. forseti. Okkur ber að fagna þegar svo er komið að við getum gert slíkar breytingar á skattkerfi okkar.