Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 21:26:55 (2012)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:26]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur látið það gerast á sínum ferli að fólk með lægri og lægri tekjur er farið að borga skatta. Þetta er fyrsta viðleitnin sem við sjáum til þess að breyta aðeins út frá því, hækkun persónuafsláttarins núna. Það er samt verið að borga skatta af ótrúlega lágum launum.

Mér finnst að þetta ríka samfélag hafi í nóga sjóði að sækja aðra en vasa láglaunafólks. Þó að það geti vel verið að fólk með húseignir — og þar vísa ég til umræðu sem fór fram hér áðan — fái eitthvað út úr því núna að eignarskatturinn sé lagður af er það einfaldlega vegna þeirrar stefnu sem hefur verið rekin. Auðvitað hefði verið hægt að sjá til þess að dregið væri frá fólki sem á húseignir þannig að menn væru ekki að borga af einhverri venjulegri húseign. En hér er ekki verið að gera það. Hér er verið að leggja eignarskattinn gjörsamlega af og fyrir það er út af fyrir sig ekki nein sérstök þörf. Þeir sem eiga miklar eignir geta vel borgað eitthvað af þeim.

Hv. þingmaður talaði um að það hefði þurft að hafa þetta allt á hreinu og nú sé þetta allt á hreinu. Auðvitað er þetta ekkert allt á hreinu. Það liggur alls ekkert fyrir að þeir útreikningar sem menn hafa fyrir framan sig til þess að taka ákvarðanirnar muni standast þegar á reynir. Hver veit hvort ríkissjóður þoli 22 milljarða kr. rýrnun eftir þrjú ár? Það veit ég ekki og ekki heldur hv. þm. Pétur Blöndal.