Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 21:29:03 (2013)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:29]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Allar spár ganga út á það að á næstu árum verði mjög mikil uppsveifla í íslensku atvinnulífi, hagvöxtur mikill, mikil hækkun tekna og þar með tekna ríkissjóðs. Þess vegna er alveg lag til þess að minnka skattbyrði almennings og halda engu að síður uppi góðu velferðarkerfi. Þetta held ég að flestir séu sammála um.

Hv. þingmaður talar líka um það að borgaðir séu skattar af ótrúlega lágum launum. Samt er í fáum löndum jafnhátt frítekjumark og á Íslandi. Það er ekki þannig t.d. í Skandinavíu, þar borga menn skatt af miklu lægri launum.

Hann talaði líka um að það væri hægt að slá af í þessu ríka samfélagi. Það er aldeilis ánægjulegt að við skulum vera með svona ríkt samfélag. Af hverju skyldi það vera? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið meðvitað stefnu um að létta álögum af fyrirtækjum þannig að þau geti greitt hærri laun og að í þeim sé meiri velta. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á það að lækka skattheimtu til að örva atvinnulífið. Þess vegna getum við talað um ríkt samfélag, herra forseti. Þess vegna getur hv. þingmaður talað um það.

Varðandi eignarskattinn hefur það verið nefnt í umræðunni að fólk borgar fjármagnstekjuskatt af tekjum af eignum. Það er óeðlilegt að menn geri hvort tveggja, borgi skatt af tekjum af eignum og auk þess eignarskatt, fyrir utan það að eignir eru myndaðar af tekjum sem búið er að borga tekjuskatt af. Fyrir utan það að eignarskattur er lagður á eignir sem eru afrakstur sparnaðar yfirleitt og við viljum örva sparnaðinn en ekki letja hann.