Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 21:59:44 (2015)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:59]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Hæstv. forseti. Okkur ber að fagna því frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt enda er það sérstakt ánægjuefni. Ríkisstjórnin stendur með því við það sem kjósendum var lofað fyrir kosningar og frumvarpið er í fullu samræmi við stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna.

Við erum að ræða um 4% lækkun tekjuskatts á einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og 50% hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar um 8% og lækkun vaxtabóta.

Á þessu kjörtímabili mun eignarskattur á einstaklinga og lögaðila felldur niður á kjörtímabilinu. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og munu eldri borgarar og lífeyrisþegar þessa lands ekki síst njóta þessara breytinga. Má reikna með að tekjur ríkissjóðs lækki um 3,5–4 milljarða með þessari niðurfellingu. Jafnframt er um að ræða verulega lækkun á tekjuskatti einstaklinga, um 4% á næstu þremur árum.

Hæstv. forseti. Tekjuskattur lækkar í áföngum úr 25,75% í 21,75%, þ.e. um 4%, sem er 15,5% hlutfallslækkun. Þetta er mikil kjarabót fyrir heimilin í landinu og skattgreiðendur. Á næsta ári mun lækkun tekjuskatts verða 1%, árið 2006 1% og árið 2007 2%. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs, þegar tekjuskattslækkunin er að fullu komin til framkvæmda, verði um 16 milljarðar kr. Forsendur fyrir þessari skattalækkun eru sterk staða ríkissjóðs og góð rekstrarafkoma. Þess eiga heimilin í landinu að njóta.

Í frumvarpinu er hækkun á persónuafslætti upp á 8% á tímabilinu, þ.e. 52.824 kr. hjá hjónum á einu ári. Þetta felur í sér 20% hækkun skattleysismarka, úr 71.270 kr. í 85.836 kr.

Barnabætur munu hækka verulega. Í fyrsta lagi er verið að ræða um 50% hækkun ótekjutengdra barnabóta á tímabilinu, þar af hækki barnabætur um 25% í ársbyrjun 2006 til viðbótar þeim 3% sem gert er ráð fyrir árið 2005. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að í ársbyrjun 2006 verði 10% hækkun tekjutengdra barnabóta. Jafnframt er lagt til að viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækki um 50% auk þeirra 3% sem áður er getið. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna hækkunar barnabóta nemur 2,4 milljörðum kr. Barnafjölskyldur munu njóta best mikillar hækkunar barnabóta, sérstaklega hinar tekjulægri.

Einnig er 3% hækkun á ýmsum viðmiðunarfjárhæðum laganna svo sem sjómannaafslætti, viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta svo og barnabóta og eignarskatts, eins og áður hefur komið fram.

Hæstv. forseti. Það hefur verið og er mikill uppgangur á Íslandi í dag og ekkert bendir til annars en að hann haldi áfram. Hæstv. fjármálaráðherra hefur þegar greint frá því að horfur séu á 25% aukningu á landsframleiðslu á árunum 2003–2007 og að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 15%. Það er ljóst að við uppbyggingu stóriðju skapast hagvöxtur og tekjuaukning en jafnframt aukin einkaneysla og fjárfesting á íbúðamarkaði.

Samhliða þessum aðgerðum þarf samt sem áður að gæta mikils aðhalds í ríkisútgjöldum án þess að velferðarkerfinu sé ógnað.

Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan tekjuskattur lækkaði. Hann lækkaði um 4% árin 1997–1999. Tekjuskattur fyrirtækja lækkaði úr 30% í 18% á árinu 2002. Það var áberandi við lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hvað tekjur ríkissjóðs jukust þrátt fyrir miklar hrakspár um tekjuminnkun ríkissjóðs.

Ég tel jafnframt að það sama muni gerast með lækkun á tekjuskatti, skattgreiðendum muni fjölga, skattsvik muni minnka og ríkissjóður fá hluta af þessari tekjuminnkun til baka. Það er nauðsynlegt að fleiri skattgreiðendur skili sér til greiðslu velferðarkerfis og samfélagskostnaðar hér á landi. Ef það gerist ekki þarf að herða hér enn frekar skatteftirlit.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun vaxtabóta, að hlutfall vaxtagjalda af skuldum til útreiknings á vaxtabótum lækki úr 5,5% í 5%, sem komi til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2006. Hins vegar er gert ráð fyrir því að við álagningu á árinu 2005 verði vaxtabætur vegna vaxtagjalda á árinu 2004 95% af útreiknuðum vaxtabótum. Reiknað er með að útgjöld ríkissjóðs lækki um 300 millj. kr. og er þetta gert til að draga úr hvata til lántöku innan lands en ljóst er að breyting á innlendum lánamarkaði og vaxtakjör hafa verið hvetjandi til lántöku þar sem greiðslubyrði heimilanna hefur breyst mikið með þessari vaxtalækkun og verið er að fjármagna allar skuldir með veðsetningu fasteigna.

Flestir stjórnmálaflokkar, að undanskildum Vinstri grænum, lofuðu skattalækkunum ef þeir kæmust til áhrifa. Af hverju lofuðu þeir því? Þeir sáu að fjármálum ríkissjóðs og stjórn efnahagsmála hefur verið stýrt skynsamlega síðustu kjörtímabil í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ekki hafa menn verið að lofa einhverju til þess að blekkja kjósendur fyrir kosningar. Nei, það er einmitt viðurkenning á því að forsendur væru til að lækka skatta hjá þeim er mynduðu ríkisstjórn eftir síðustu alþingiskosningar. Því skil ég ekki alveg viðbrögð stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Við ættum alþingismenn, öll sem einn, að samfagna þessum mikla áfanga í skattamálum okkar Íslendinga sem er einn sá stærsti í sögunni.

Hæstv. forseti. Það er alltaf verið að ræða um að hinir efnameiri fái meira en hinir efnaminni minna. Þeir sem njóta þessara skattalækkana eru þeir sem greiða skatta, vinnandi fólk sem stendur undir velferðarkerfinu. Það er rétt að þeir sem eru með hærri tekjur fá meiri lækkun í krónum en þeir sem eru með lægri tekjur fá meiri lækkun í prósentum. Því tel ég þessar skattalækkanir vera mikla kjarabót fyrir þá sem eru með lág laun og millitekjufólk, ekki síst barnafólk.

Tölurnar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var með hér áðan segja svolítið mikið þar sem hlutfall launa fyrir 100 þús. kr. tekjurnar í skatt eru 8%, 150 þús. kr. 17,2%, 500 þús. kr. 30% og milljónin 32,7%. Það er alltaf verið að tala um að verið sé að hygla hátekjufólki en ég segi: Hvar á að setja mörkin?

Sem dæmi um áhrif þessara aðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með eitt barn undir sjö ára aldri og 125 þús. kr. tekjur á mánuði hækka um 12.500 kr. á mánuði, þ.e. 150 þús. kr. á ári. Það eru um 10%. Rástöfunartekjur hjóna með 300 þús. kr. tekjur á mánuði samanlagt og tvö börn, annað yngra en sjö ára, hækka um 23.500 kr. á mánuði, þ.e. 282 þús. kr. á ári. Það er hækkun upp á 9,5%. Heildaráhrif þessa frumvarps leiða til 4,5% hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu.

Ég ætla í lokin að fara yfir nokkrar staðreyndir miðað við breytingu á tekjuskatti á verðlagi dagsins í dag til ársins 2007. Þar er miðað við heildartekjur hjóna þar sem bæði skattkort eru nýtt, enda er heimild til þess að maki geti nýtt skattkort 100%, og ég ætla að rekja söguna frá 2004–2007, miðað við þessar breytingar nái frumvarpið fram að ganga. Árið 2004 er núllpunktur hjá hjónum sem nýta sér fullt skattkort 141.804. Ég tek ekki tillit til barnabóta, eingöngu launa sem tekjuskattur og útsvar er tekið inn í. Þá þurfa þau ekki að greiða krónu í skatt. Árið 2005 hækkar þetta í 149.924, árið 2006 í 157.850 og árið 2007 í 170.681. Það skal tekið fram að 4% lífeyrisgreiðslur eru ekki inni í þessu.

Ef við miðum við 200 þús. krónurnar árið 2004 fær sá aðili útborgaðar 177.431 kr. Árið 2005 fær sá með 200 þús. 181.081. Árið 2006 fær hann 184.497 og árið 2007 189.803. Svona getum við haldið áfram. 250 þús. 2004 skilja eftir 208.041, 2005 212.191, 2006 216.107 og 2007 222.413.

Ef við förum upp í 300 þús. kr. heildarlaun hjóna er útborgunin árið 2004 238.651, árið 2005 243.301, árið 2006 247.717 og árið 2007 255.023. Þetta er hækkun frá árinu 2004 til ársins 2007 hjá þeim sem eru með 142 þús. og borga ekki skatt og upp í 171 þús. upp á 28.877 kr. á mánuði sem leggur sig á 20,36%.

Ef við skoðum þetta í prósentum er aðilinn sem er með 200 þús. á mánuði árið 2004 með hlutfall útborgaðra launa 88,7%, árið 2005 90,5%, árið 2006 92,2% og árið 2007 94,9%.

Ef við skoðum aðila með 250 þús. kr. árið 2004 fær hann 83,2% útborguð af laununum þegar búið er að draga skattana frá, árið 2005 84,9%, árið 2006 86,4% og árið 2007 89%.

Hjón með 300 þús. fá útborgað árið 2004 79,6%, 2005 81,1%, 2006 82,6% og 2007 85%.

Þessar kjarabætur eru miklar með þessum skattbreytingum og því mikilvægt að þetta frumvarp nái fram.

Virðulegi forseti. Það kemur fram í útreikningum mínum, sem ég hef þegar fengið staðfest að eru réttir, að hér er um að ræða eitt mikilvægasta frumvarpið fyrir heimilin í landinu sem er ekkert annað en mikil kjarabót þar sem ráðstöfunartekjur heimilanna munu aukast verulega. Við erum að leyfa íbúum þessa lands að njóta arðs af mikilli velgengni hinnar styrku efnahagsstjórnar síðustu ára. Því er mikilvægt, herra forseti, að þetta frumvarp nái fram að ganga á þessu haustþingi.