Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 22:10:20 (2016)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:10]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa lagt fram þetta gleðilega frumvarp og óska honum til hamingju með það sem og þingmönnum öllum og launamönnum landsins. Alveg sérstaklega, herra forseti, vil ég benda fólki á 30. gr. frumvarpsins, en þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Heiti laganna verður: Lög um tekjuskatt.“

Ekki lengur lög um tekju- og eignarskatt, heldur bara lög um tekjuskatt sem segir mér það að eignarskatturinn er fallinn niður. Hefði einhver sagt mér það fyrir sjö árum hefði ég ekki trúað honum. Svo ánægjulegt er þetta.

Hér er líka lagt til að lækka tekjuskattinn um 1%, svo 2%, svo 4%. Það auk hækkunar á persónuafslætti veldur því að frítekjumarkið hækkar. Það á að fella niður eignarskatt eins og ég gat um, það á að hækka barnabætur. Þetta má eiginlega ekki vera miklu betra.

Herra forseti. Þrátt fyrir þetta er stjórnarandstaðan á móti. Við mig talaði, eins og ég gat um fyrr í umræðunni, kona sem spurði: Þarf stjórnarandstaðan alltaf að vera á móti, líka á móti góðum málum? Er það virkilega svo, er það einhver nauðsyn? Er þetta einhver sandkassaleikur?

Ég get alveg skilið Vinstri græna, ég hef sagt það hér í umræðunni, ég get alveg skilið þá. Þeir vilja meiri skatta, þeir vilja bara helst rífa allar tekjur af fólki og deila þeim út aftur. Það er bara heimssýn þeirra. En ég skil ekki Samfylkinguna og ég skil ekki Frjálslynda flokkinn.

Ég skil ekki Samfylkinguna vegna þess að einmitt allt þetta frumvarp var á stefnuskrá þeirra einu sinni, og ekki langt síðan. Svo breytti hún stefnuskránni og fór í eitthvað allt annað og svo aftur allt annað og enn einu sinni. En það er nú bara þannig með hv. þingmenn þess flokks, herra forseti.

Það er rætt hérna nokkuð að þetta frumvarp valdi þenslu. Samt er það svo að í fjárlagafrumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi og er til umfjöllunar og verður afgreitt hérna 5. desember — herra forseti, ég vil sérstaklega benda á að fjárlagafrumvarpið verður afgreitt mjög snemma sem sýnir hversu vel haldið er á málum hjá hæstv. fjármálaráðherra og hvað er mikill agi á öllu — er gert ráð fyrir miklum afgangi þrátt fyrir þessa skattalækkun. Þannig er meiningin að vinna áfram, að það verði afgangur á fjárlögum þannig að þessi skattalækkun, sem menn kalla svo, valdi ekki þenslu.

Því miður er það svo að vegna mikillar óráðsíu í rekstri Reykjavíkurborgar, Línu.Nets og svoleiðis ævintýra sem hafa kostað borgina milljarða, er hún að hækka útsvarið á sama tíma og ríkissjóður er að lækka tekjuskattinn. Þess vegna munu borgarar í Reykjavík, því miður, í mínu kjördæmi, ekki sjá eins mikið af þessum skattalækkunum og ella hefði verið. Það er mjög miður og menn ættu virkilega að leiða hugann að því hvort ekki þurfi að skipta um stjórnendur á þeim bæ.

Hér hafa hv. þm. komið með útreikninga út og suður og taka þá mið af hátekjuskattinum sem er að lækka líka samkvæmt lögum frá Alþingi sem voru samþykkt fyrir nokkru síðan. Það er svo sem þeirra góði réttur en mér finnst að þeir eigi þá að nefna það. Ég var svo hissa á útreikningunum að ég skildi þá ekki lengi vel þangað til ég komst að þessu. Það er löngu ákveðið að hátekjuskatturinn, sem var upphaflega settur á til bráðabirgða, loksins hverfi enda hníga allar aðstæður í þjóðfélaginu til þess að hann megi falla niður.

Herra forseti. Þetta frumvarp sem við hér ræðum, þetta góða, fallega frumvarp, er liður í því markmiði ríkisstjórnarinnar að stækka þjóðarkökuna og leggja áherslu á að hún stækki þannig að allir fái meira heldur en að vera svo uppteknir af að skipta henni að hún minnki og minnki þannig að allir fái nánast ekki neitt. Það er fyrirbæri sem mér finnst oft bera keim af öfund og vantrú á borgaranum, að hann geti ekki ráðstafað tekjum sínum eins vel og ríkissjóður. Því er hins vegar öfugt farið, herra forseti, borgarinn er miklu færari við að ráðstafa tekjum sínum en ríkissjóður og sanna það mörg dæmi.

Eins og ég gat um verður eignarskatturinn felldur niður. Ég man eftir því fyrir nokkrum árum, ætli það séu ekki svona 3–4 ár síðan, að þá skrifaði öryrki í dagblað. Hann hafði verið að safna og nurla — sem sumir kalla nurl, ég kalla það sparnað — af bótunum sínum og var kominn upp í pínulitla upphæð og þá fór hann að borga eignarskatt. Honum fannst það mjög óréttlátt og mér finnst það líka mjög óréttlátt, herra forseti, að þeim sem neitar sér um neyslu, ferðalög og annað slíkt, sé refsað með eignarskatti. Því ætlum við að hætta núna, herra forseti.

Svo gerist það mjög oft vegna þess hvernig þjóðfélagið er byggt upp að konur, ekkjur, erfa menn sína á efri árum, stórar fasteignir oft og tíðum, dýrar, dýrar í rekstri en þar er innbúið og allar minningarnar. Þessar ekkjur hafa þurft að borga eignarskatt hingað til og oft og tíðum verið með mjög lágar tekjur. Þetta finnst mér hafa verið mjög ósanngjarnt, og sérstaklega ósanngjarnt þegar þess er gætt að þetta fólk sem býr eitt sér í húsum sínum sparar þjóðfélaginu mjög stórar upphæðir í rekstri elliheimila. Þessu ætlum við að hætta. Við ætlum að hætta að skattleggja ekkjur þessa lands með eignarsköttum. Þessar eignir sem skattur er lagður á eru myndaðar með sparnaði, með því að neita sér um eitt og annað, og þær eru myndaðar með sparnaði sem er búinn til með tekjum. Það er búið að borga tekjuskatt af þeim tekjum, það er sem sagt verið að margskatta.

Svo hefur líka verið nefnt að búið er að taka upp skattlagningu á tekjur af fjármagni, sem sagt tekjur af eignum, sem er fjármagnstekjuskatturinn og þá er óeðlilegt að vera með eignarskatt sömuleiðis.

Menn tala hérna, sérstaklega hefur stjórnarandstaðan í dag talað, um lágtekjufólk eins og það sé einhver hópur manna sem er óumbreytanlegur, þetta sé eitthvert persónueinkenni á fólkinu, það sé bara fátækt — bláeygt og fátækt. Auðvitað er fátækt ekkert persónueinkenni. Það er ekki eins og að menn fæðist fátækir og verði fátækir alla tíð síðan. Þetta er ekki sérstakur kynþáttur. Nei, þetta er ástand sem við eigum að reyna að breyta. Við eigum að stefna að því að fátækt fólk hætti að vera fátækt og fari að afla sér hærri tekna, geti aflað sér hærri tekna og að fátæktargildrur séu teknar í burtu.

Ég vil nefna sem dæmi að ef einhver sem er fátækur í dag, með lágar tekjur, bætir tekjur sínar detta vaxtabæturnar niður um 6% af tekjum, húsaleigubætur, ef hann leigir, um 12% af tekjum, barnabætur, ef hann á þrjú börn, um 9% af tekjum. Ef hann hefur verið námsmaður og er að borga af námsláni borgar hann 4,75% af tekjum. Það er harla lítið eftir þegar staðgreiðslan er tekin með, 38,55%. Þá er bara harla lítið eftir og lítill hvati fyrir þennan mann að vinna eitthvað aukalega, vinna sér inn meiri tekjur.

Þessu erum við að breyta. Við erum að lækka skattana í fyrsta lagi, 38 prósentin, við erum að lækka endurgreiðslu til LÍN og við erum að hækka barnabæturnar, lækka hlutfallið úr 9% í 8% fyrir þrjú börn.

Herra forseti. Það er dálítið undarlegt að hlusta á marga þingmenn stjórnarandstöðunnar tala eins og að ríkið eigi tekjur fólks. Ég hef bent á þetta áður. Þeir tala um að það sé verið að gefa fólki gjafir, verið að gefa fólki gjafir með þessum skattalækkunum. Hvers lags hugsun er þetta eiginlega? Er ekki ríkið að rífa tekjur af fólki? Það er ekki að gefa fólkinu neinar gjafir, það er að rífa minna af fólki í skatta. Ríkið á nefnilega ekki tekjur fólks, fólkið á þær sjálft og ríkið tekur hluta af þeim til að standa undir velferðarkerfinu og þeir sem hafa tvöfalt hærri tekjur borga margfalt meiri skatt. Þannig er það áfram og það er enginn sem stefnir að því að breyta því.

En ég vara menn við því að líta á tekjur einstaklinga sem eign ríkissjóðs.