Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 10:36:34 (2286)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:36]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur nú til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Eins og fram hefur komið mjög rækilega eru hér ákveðin vatnaskil í fjárlögum ríkisins. Nú er tekið fyrsta skref í verulegum skattalækkunum sem koma fyrst og fremst hátekjufólki til góða en eykur hlutfallslega skattbyrði þeirra sem hafa lægstu launin. Sömuleiðis er gripið til niðurskurðar á móti og skertra framlaga til velferðarþjónustunnar. Þessa stefnu gagnrýnum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum hér nokkrar breytingartillögur sem undirstrika áherslu okkar í velferðarmálum og ýmsum öðrum málum sem við höfum gert allverulegar athugasemdir við í tillögum meiri hlutans. Við munum styðja þær tillögur sem koma fram bæði af hálfu meiri hlutans og af hálfu annarra þingmanna sem koma fram með tillögur sem okkur þykir vera til bóta við afgreiðslu fjárlaganna. Ég vek athygli á því að meginniðurskurðurinn sem á að koma á í fjárlögum næsta árs er niðurskurður á samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Gert er ráð fyrir nærri tveggja milljarða króna niðurskurði á henni á næsta ári. Það liggur enn ekki fyrir sundurliðun á þeim niðurskurði og ég vek athygli hæstv. forseta á því að sundurliðaðar niðurskurðartillögur, verði þetta samþykkt við 2. umr., þurfa að koma inn í fjárlaganefnd áður en við afgreiðum frumvarpið úr nefndinni til 3. umr. Formlegar tillögur um niðurskurð í samgöngumálum þurfa að koma þar inn áður en við getum tekið endanlega afstöðu til frumvarpsins.

Að öðru leyti vísum við allri ábyrgð á þeirri vinnu og þeirri samþykkt sem hér verður gerð varðandi fjárlögin við 2. umr. á hendur ríkisstjórninni hvað það varðar sem hér er verið að gera.