Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 10:43:03 (2289)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:43]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega ánægjulegt að fá að greiða atkvæði um þessa tillögu og það er gaman að vera hér og taka þátt í afgreiðslu á fjárlögum. Við erum enn og aftur að verða vitni að stórkostlegum árangri í efnahagsstjórn og það er augljóst að við Íslendingar erum að keppa meðal þeirra bestu. Loksins erum við að hefja hér mestu skattalækkanir Íslandssögunnar. Við erum að lækka skatta á venjulegu vinnandi fólki. Það gerum við að sjálfsögðu þrátt fyrir það að núna hafi skattpíningarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, sýnt sitt raunverulega andlit og staðfest að þær skattalækkanir sem lofað var fyrir síðustu kosningar, sérstaklega af Samfylkingunni, voru loforð sem átti að svíkja.

Þingmaðurinn segir já. (Gripið fram í.) Hér er kallað matarskattur. Síðast þegar hv. þingmaður var í Alþýðuflokknum gengu þeir úr stjórn þegar (Forseti hringir.) við vildum lækka matarskattinn.