Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 10:55:36 (2294)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til að undir liðnum Ýmis íþróttamál bætist við liður upp á 150 millj. til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga innan lands. Þetta er auðvitað lagt til vegna þess að verkefnið er brýnt og hefur iðulega verið um það rætt að þarna þurfi að gera bragarbót á því að mikill ferðakostnaður háir mjög þátttöku einstaklinga og félaga í keppni, sérstaklega þeirra liða sem koma af landsbyggðinni.

Þetta er líka gert til að fylgja eftir tillögu til þingsályktunar sem nokkrir hv. þingmenn hafa a.m.k. tvívegis flutt hér um ferðasjóð íþróttafélaga, garpar eins og hv. þingmenn Hjálmar Árnason, Birkir J. Jónsson og Magnús Stefánsson. Þarna er um að ræða fjárlaganefndarmenn og verður þess auðvitað fastlega vænst að þeir fylgi sínu góða máli eftir og samþykki þessa tillögu þannig að ekki sé látið sitja við orðin tóm. (Gripið fram í: Þeir eru allir á rauðu.) Verkin sýna merkin og hér reynir á hvort menn meina eitthvað með því sem þeir eru að segja og flytja í tillöguformi eða hvort það er sýndarmennska ein.