Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 11:41:58 (2306)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:41]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að sækja um heimild til að selja hluta af jörðunum Selárdal og Uppsölum í Vesturbyggð. Við höfum jafnframt fengið erindi inn til þingsins um sérstakan fjárstuðning til að gera þar við mannvirki, byggja upp og skipuleggja svæðið. Ég tel því algjörlega ótímabært að vera að sækja um heimildir til að selja ákveðna hluta af þessu svæði fyrr en búið er að ganga frá því skipulagi og marka því þá áætlun sem því er ætlað að gera í framtíðinni. Ég tel gjörsamlega ótímabært að sækja nú um heimild til að mega selja hluta úr jörðunum Selárdal og Uppsölum. Í rauninni er það svo með stefnu landbúnaðarráðuneytisins í þessum jarðamálum og jarðasölumálum að hvað eftir annað hefur verið kallað eftir heildstæðri stefnu af hálfu ríkisins gagnvart jarðeignum í eigu ríkisins en ekki vera að selja þær svona hipsum haps.

Herra forseti. Ég tel að við eigum ekki að samþykkja að þessu sinni að selja hluta úr jörðunum Selárdal og Uppsölum í Vesturbyggð.