Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 13:53:07 (2322)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:53]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki endilega að vekja upp svona mikla viðkvæmni hjá hæstv. ráðherra en það er ágætt ef hún finnur að það er nauðsynlegt.

Það sem ég legg áherslu á er að þarna sé fullkominn trúnaður. Fjármálamarkaðurinn er einn umsvifamesti markaður hér á landi, hann er eðlilega undir gagnrýni en trúnaðurinn sem verður að ríkja í kringum þennan markað er veigamikil forsenda fyrir því að hann geti í rauninni starfað samkvæmt þeim óskum sem við viljum að hann starfi og blómgast á þeim grundvelli sem við viljum að hann blómgist. Því er svo mikilvægt að eftirlitsstofnanirnar, sem er falið svona gríðarlega mikið hlutverk, og gott og vel með það, séu fullkomlega sjálfstæðar frá framkvæmdarvaldinu, frá ráðherrum.

Mér kemur á óvart ef ráðherra finnst það vera lítil umsvif sem ríkisstjórnin og hún sem viðskiptaráðherra hafa staðið fyrir með sölu á ríkisbönkunum. Ég kalla það ekki lítil umsvif, síður en svo, og mjög umdeild.