Raforkulög

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 14:42:19 (2329)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[14:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þá er það komið, fyrsta plástursfrumvarpið á nýja raforkulagamóverkið sem ég kallaði svo og reitti þar með til reiði hv. þm. Kristin H. Gunnarsson með svo óvirðulegu orði um þessa miklu smíð, markaðsvæðingu raforkumálanna á Íslandi. Og örugglega ekki það síðasta, það kæmi mér ákaflega á óvart ef þetta væri síðasta plástursfrumvarpið sem við eigum eftir að sjá á næstu árum.

Á sínum tíma var nefnt í umræðunum, hvort það var þegar raforkulögin sjálf voru til umfjöllunar árið 2003 eða lögin sem voru afgreidd síðasta vor, að Danir hefðu þurft einar fimm breytingar, fimm atrennur til að breyta sínum orkulögum og hefur þó gengið á ýmsu þar eins og kunnugt er. Þau vandamál sem verið er að rembast við að taka á með þessu frumvarpi og breyta lögum sem eru að hluta til ekki nema nokkurra mánaða gömul eru alveg dæmigerð og lýsandi fyrir öll þau vandamál sem menn eru að rekast á, stanga hausinn í þegar þeir ætla út í leiðangur af þessu tagi. Þetta er ákaflega snúið viðfangsefni og kannski gengur árátta nýfrjálshyggjunnar óvíða lengra en þegar verið er að reyna að búa til einhverjar markaðs- og samkeppnisforsendur inn í grein af þessu tagi. Hún lýtur nánast alfarið lögmálum náttúrulegrar einokunar að öllu leyti nema þá því að ef menn leggja út í allt þetta brölt til að geta komið á einhverri samkeppni á a.m.k. fræðilega að vera hægt að keppa um að selja raforku inn á kerfið. Að hinu leytinu til, bæði hvað varðar flutning og síðan sölu rafmagnsins í smásölu eftir dreifikerfum, er þarna um klassíska náttúrulega einokunarstarfsemi að ræða.

Hvað gerist þá? Þá gerist það að menn fara að reyna að setja upp eftirlit með því að menn misnoti ekki stöðu sína. Þetta er alveg yndisleg útgáfa af vandamálunum sem upp koma sem hér er verið að fjalla um í 2. gr. þessa frumvarps, alveg klassísk. Hugsuðirnir hafa fundið út úr því í sumar að ekki sé nóg að hafa þessi tekjumörk og heimild til að setja þau þannig að menn nái arðseminni inn fyrir ásættanleg mörk og þau sem lögfest eru eða ákveðin af framkvæmdarvaldinu, hvort sem heldur er nú. Hér var valin sú leið að miða við ávöxtun ríkisskuldabréfa og að menn skyldu ekki taka sér meiri arð af starfseminni en svo.

Menn hafa hins vegar áttað sig á því, samanber umsögn um 2. gr. frumvarpsins, að það er gat í þessu. Þeir fundu gat í þessu. Það er sem sagt ekki tekið á því hvernig með skuli fara ef innheimtar tekjur samkvæmt gjaldskrá eru utan tekjumarka viðkomandi fyrirtækja en þó innan arðsemismarka. Bíðið, hvernig getur það gerst? Jú, ef fyrirtækið er nógu illa rekið, ef það tekur sér allt of háar tekjur en er hins vegar svo illa rekið að arðsemin kemur inn fyrir mörkin. Já, það verður einhvern veginn að reyna að loka þessu. Þá er lagt fram frumvarp, plástur á kerfið frá því í fyrra og hittiðfyrra. Þetta verður örugglega ekki síðasti plásturinn.

Það er sjálfsagt alveg rétt að Orkustofnun þarf að geta tekið á þessu. Að vísu hefur orkumálastjóri, sá mæti maður og mikli stærðfræðingur mótmælt því en ég hef spáð því, t.d. á fundi úti í bæ í gær um mál nátengt þessu, að eini aðilinn sem muni virkilega blómstra og græða á þessu brölti, markaðsvæðingu raforkumála á Íslandi, verði Orkustofnun. Þar mun þurfa mikinn mannskap og mikið úthald til að reyna að koma við öllu þessu eftirliti. Ég spái því að það eigi eftir að koma á daginn þótt menn telji sig þar enn vera frekar hófsama, með kostnað um áætlaðar 40 millj. kr. og um þrjá til fimm starfsmenn í þessum djobbum.

Nei, frú forseti, það er leitun að vitlausara sviði til að reyna að koma inn í markaðsvæðingu, samkeppni eða einkavæðingu, en raforkumálunum, og alveg sérstaklega hér á Íslandi. Það hefur eiginlega alls staðar reynst erfitt og meira og minna gefist illa þar sem menn hafa prufukeyrt þetta, sums staðar í áratugi eða a.m.k. um árabil. Það þýðir auðvitað ekki að neita þeim hroðalegu ógöngum sem menn hafa lent í í Norður-Ameríku, bæði á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna, í Kaliforníu, New York fylki og víðar (Iðnrh.: Þar voru allt aðrar ástæður.) Allt aðrar ástæður, segir hæstv. ráðherra. Já, það er kannski sama skýringin og í skýrslu Verslunarráð, athyglisverðu plaggi sem ég hvet menn til að lesa. Þeir tala um þetta, auðvitað sanntrúaðir og þar skal niðurstaðan vera hvað sem tautar og raular að rétt sé að markaðs- og einkavæða raforkumálin.

Hvað gerist þegar reynslan er slæm, þegar veruleikinn er ómögulegur og neitar að hlýða kenningunum? Þá er það veruleikinn sem er vitlaus en kenningarnar réttar. Það er eiginlega grunntónninn í skýrslu Verslunarráðsins um markaðsvæðingu orkukerfisins og mér heyrist hæstv. ráðherra vera á sömu nótum.

Ófarirnar sem þetta hefur haft í för með sér í Bandaríkjunum, í Skandinavíu, á Nýja-Sjálandi og niðri á meginlandi Evrópu, eru ekki teknar með í reikninginn. Menn hafa víða lent í bullandi vandræðum. Það hefur dregið úr afhendingaröryggi og menn orðið rafmagnslausir lon og don. Kostnaðurinn hefur farið upp úr öllu valdi, menn hafa mátt dæla peningum inn í orkufyrirtækin til að þau færu ekki á hausinn og menn hafa meira að segja neyðst til að þjóðnýta þau aftur.

Á austurströnd Bandaríkjanna hafa fylki farið út í að leysa til sín aftur einkavædd orkufyrirtæki, bara til að bjarga málunum, til þess að menn hafi rafmagn. En það er ekkert að formúlunni. Kenningin er samt rétt. Það er bara veruleikinn sem er vitlaus. Þá tala menn um aðferðirnar við markaðsvæðinguna. Markaðsvæðing er iðulega, frú forseti, undanfari og auðvitað nauðsynlegur undanfari einkavæðingarinnar, en það er lokatakmarkið. Það er lokatakmarkið sem svífur alls staðar yfir vötnunum. Það stendur að vísu dálítið í mönnum að gera það hér vegna þess að orkufyrirtækin eru ekki mjög einkavæðanleg um þessar mundir, sérstaklega það stærsta þeirra, Landsvirkjun. Hún er ekkert sérstaklega fýsilegur pakki.

Hvert yrði gengið á bréfum í Landsvirkjun um þessar mundir ef hún yrði skráð? Ætli það yrði mjög beysið, eins og skuldir þess fyrirtækis hafa þróast um þessar mundir vegna hinna brjálæðislegu fjárfestinga, t.d. í Kárahnjúkavirkjun og alveg hörmulegrar arðsemi af því brölti? Það liggur fyrir að þar er ekki um að ræða heildsölu á rafmagni heldur útsölu á rafmagni. Útsala á rafmagni til erlendrar stóriðju er lausnarorðið á Íslandi í dag.

Það er ljóst, frú forseti, það voru menn þó nánast allir sammála um sem tjáðu sig um raforkulagamálin í fyrra og hittiðfyrra og sendu umsagnir til iðnaðarnefndar Alþingis, að þetta mun leiða til hærra raforkuverðs. Annað er óhugsandi vegna þess að allar breytingarnar hafa í för með sér kostnað.

Í fyrsta lagi er ljóst að þetta leiðir til verulegs kostnaðar vegna aðskilnaðarins í starfsemi fyrirtækjanna. Forstjóri Landsvirkjunar kallaði það í gær öfug samlegðaráhrif. Það er oft talað um það, þegar starfsemi er sameinuð, hagrætt og sparað í yfirstjórn, að það hafi í för með sér jákvæð samlegðaráhrif. En hér er um hið gagnstæða að ræða. Menn eru neyddir til að skipta starfseminni upp, búa hana út í sjálfstæðum fyrirtækjum, í fleiri lögum sem eiga síðan innbyrðis viðskipti og svo verður að hafa eftirlit með öllu. Það leiðir í fyrsta lagi til umtalsverðs kostnaðar vegna framkvæmdarinnar og vegna hinna svokölluðu öfugu samlegðaráhrifa.

Í öðru lagi verður heilmikill kostnaður af eftirlitinu. Það þarf að borga eftirlitið. Eftirlitsiðnaðurinn blómstrar. Það er eiginlega reglan þar sem menn fara út í einkavæðingu, sérstaklega einkavæðingu á almenningsþjónustu sem lýtur að einhverju leyti lögmálum náttúrulegrar einokunar. Þá blómstrar eftirlitsiðnaðurinn og honum fylgir mikill kostnaður.

Í þriðja lagi munu raforkunotendur á komandi árum þurfa að borga arðinn sem á að fara að reikna eigendunum, sem hefur í litlum mæli verið tekinn inn í dæmið enn þá.

Hvers vegna voru menn ekkert uppteknir af því að reikna sér arð á árum áður, af fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur eða forverum þeirra, Laxárvirkjun á sínum tíma fyrir norðan eða Hitaveitu Suðurnesja? Jú, það var af því að þetta var þjónusta, skilgreint sem almannaþjónusta en ekki bisness. Arðurinn var fólginn í því að veita þjónustuna, veita hana vel og hafa hana ódýra.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði á nefndum fundi Verslunarráðsins um markaðsvæðingu orkugeirans í gær að það mætti segja að arðurinn hafi verið greiddur út til neytenda, kaupenda, í gegnum lægra orkuverð. Það er alveg rétt. En er það ekki fínt? Er hann ekki vel kominn þar?

Það er dálítið sérkennilegt að sjálfstæðismenn tala mikið um það í tengslum við skattamál að almenningur sé betur að því kominn að ráðstafa tekjunum og það eigi ekki að taka þær inn til ríkisins. Hér eru hinir sömu á því að fara gagnstæða leið. Nú á að hækka raforkureikninga heimilanna um allmörg prósent til þess að taka arðinn frá notendunum, sem áður var fólginn í lægra raforkuverði, og draga hann inn til eigendanna.

Hvað eru eigendurnir að ræða um? Þeir segja: Arðsemisviðmiðin í gildandi lögum eru of lág. Það stóð upp úr öðrum hverjum manni í gær. Þau eru of lág. Það þarf að hækka þetta. Hlutfallið af ávöxtun ríkisskuldabréfa til fimm ára dugir ekki, við verðum að fá meira, segja þeir. Það er hættulegt upp á framtíðina ef við megum ekki græða meira en þetta.

Allt þetta mun valda hærra raforkuverði. Um það er ekki deilt. Tölurnar sem við munum frá því í fyrra og hittiðfyrra hlupu kannski frá 5%, hjá þeim sem allra bjartsýnastir voru, og upp í 20% eða þar yfir. Þá voru menn að vísu að tala um að taka inn í sjálft kerfið verðjöfnun, flutningsjöfnunina sem nú á að koma í gegnum fjárlög. Það kemur þá ekki fram með þeim hætti heldur munu skattgreiðendur í landinu taka á sig þann kostnað. En auðvitað er hann til staðar og hverfur ekki þar með.

Við börðumst fyrir því á sínum tíma og töluðum fyrir því ýmsir, allt frá því að orkutilskipun Evrópusambandsins var í smíðum á tíunda áratugnum og þangað til hún var innleidd hér og Íslendingar gerðust aðilar að henni, að reynt yrði að fá undanþágu frá þessari tilskipun. Það voru öll efni til þess. Ísland er einangraður orkumarkaður og ekki tengdur orkumörkuðum meginlands Evrópu þar sem menn reyna að koma á þessari samkeppni og viðskiptum með raforku yfir landamæri. Það á alls ekki við hér og er út í hött.

Í öðru lagi er eignasamsetningin á orkufyrirtækjum hér þannig að það er eins og hver annar brandari að fara í allt þetta brölt til að markaðsvæða orkubúskap á Íslandi, þegar eigendurnir eru opinberir aðilar, ríkið, Reykjavíkurborg, Akureyri. Reykjavíkurborg á hlut í Landsvirkjun og rúm 90% í Orkuveitu Reykjavíkur. Sveitarfélög á Suðurnesjum eiga stóran hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er enginn einkarekstur. Hvað á þá allt þetta brölt að þýða? Það er óskiljanlegt nema að það sé gagngert hugsað sem undanfari einkavæðingar. (Gripið fram í.) Já, sem menn eiga auðvitað ekki að líta á sem heilög og óumbreytanleg vé.

Hvað var að því að reyna að fá undanþágu fyrir Ísland í þessum efnum, rétt eins og við erum með undanþágu frá evrópskri tilskipun um verslun með jarðgas? Af hverju erum við með undanþágu frá evrópskri tilskipun um verslun með jarðgas, hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Jú, það að er af því að meira að segja Evrópusambandið sá hve arfavitlaust væri að Ísland þyrfti að brölta í því að innleiða tilskipun um viðskipti með jarðgas og því væri best að sleppa því. Það hefði verið álíka hallærislegt að við værum að brölta við eitthvað sem varðar járnbrautarsamgöngur á meginlandi Evrópu, skipaskurði eða annað í þeim dúr.

Einnig hefði verið hægt að fara fram á að fá tímabundna eða afmarkaða undanþágu frá tilskipuninni þótt hún sem slík stæði að einhverju leyti gagnvart Íslandi. Til eru mörg þekkt dæmi um að menn hafi fengið að hafa vissan sveigjanleika í framkvæmdinni, vissar tímabundnar undanþágur. Það er auðveldara að ná því fram gagnvart hinu háa Evrópusambandi. Það særir ekki eins samræmingaráráttuna að allt skuli lúta einum vilja, viljanum í Brussel, ef það er hægt að fóðra það sem eitthvað tímabundið eða afmarkað.

Það var t.d. hugsanlegt að fá sérstakar undanþágur til dreifingar raforku á landsbyggðinni til almennra notenda og segja sem svo: Ja, við getum reynt að aðlaga þetta og sníða í grófum dráttum að samkeppnis- eða markaðsumhverfi hvað varðar hinn stóra markað og stórnotendur en á hinn bóginn höfum við Vestfirði, norðausturhornið og önnur svæði sem eru algjörlega einstök og hvergi til nema á Íslandi og megum við ekki fá að halda okkar fyrirkomulagi þar eða því sem við teljum best henta? Ég er alveg viss um að það hefði mátt tala fyrir slíku.

Veltum aðeins fyrir okkur hvaða skynsemi er fólgin í því að kljúfa upp Orkubú Vestfjarða sem var og er prýðilegt fyrirtæki? Það hefur leyst það verkefni vel af hendi að framleiða og dreifa rafmagni um Vestfirði með þeim árangri að raforkuverð á Vestfjörðum var lægra svo nam jafnvel 10% miðað við aðra staði á landinu, a.m.k. á dreifisvæði Rariks. Þetta var vegna þess að Orkubú Vestfjarða var uppbyggt eins og ég held að sé hárrétt að hafa þetta. Þar var á einni hendi talsverð framleiðsla, líklega um 40% af því sem selt var á svæðinu, afgangurinn var keyptur í heildsölu, og auk þess dreifing og sala, smásala. Inni í þessu kerfi hjálpuðu t.d. afskrifaðar virkjanir eins og Mjólkárvirkjun til. Framlegðin af henni hjálpaði til við að dekka dreifingarkostnaðinn á Vestfjörðum. Er eitthvað að því? Nei, það er alveg prýðilegt fyrirkomulag.

En þá kemur svona tilskipun og stjórnvöld hafa engan metnað eða vilja til að skoða hvort við eigum að reyna að hafa þetta á þeim forsendum sem við teljum henta okkur best. Fyrirvaralaust er ákveðið að gerast aðilar að hinni evrópsku orkutilskipun. Menn vöknuðu svo upp við vondan draum á Íslandi árin 2002 og 2003 þegar það var allt um garð gengið og löngu orðið of seint að grípa í taumana. Þá hrukku þau upp í borgarstjórn Reykjavíkur, og er nú ekki á hverjum degi sem þau verða sammála Ingibjörg Sólveig Gísladóttir og Björn Bjarnason. Þau hrukku upp og fóru að tala um að það hefði kannski átt að reyna að fá undanþágu frá þessu. Ég held að ég fari alveg hárrétt með það að þau hafi bæði haft orð á því í borgarstjórn Reykjavíkur. Það var bara tveimur, þremur árum of seint.

Þegar ég lagði það til á Alþingi í minnihlutaáliti utanríkismálanefndar vorið 2000, ef ég man rétt, að við féllum ekki frá stjórnskipulegum fyrirvara og færum aftur og reyndum að fá undanþágu þá talaði ég aleinn þar fyrir daufum eyrum. Svo fóru menn að hrökkva upp hér og þar í bænum, ótrúlegasta fólk, en ekki hæstv. ráðherra. Hún hefur aldrei vaknað af neinum blundi í þessu máli og er enn jafninnilega hamingjusöm og sannfærð um hvað þetta sé allt saman stórkostlega snjallt, t.d. sé þetta svo gott vegna þess að þá geti litlar virkjanir farið að blómstra og framleiða inn á kerfið. (Gripið fram í.) Hvernig gengur það nú hæstv. ráðherra? Hvernig gengur með Djúpadalsvirkjun? Eru ekki einhver smávandamál þar varðandi gjaldtökuna (Gripið fram í.) og dreifingargjöldin og allt það? Ætli það ekki? Vill nú ekki hæstv. ráðherra koma og upplýsa okkur um hvernig framkvæmdin og undirbúningurinn undir þetta gengur almennt? Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig á að fara með afslættina sem fiskeldið hefur haft á raforkuverði hingað til? Er búið að leysa það mál? Það er ekki hægt að koma slíku við í þessu fína nýja kerfi. Það má ekki. En þannig er að Landsvirkjun hefur látið fiskeldið hafa rafmagn á alveg geysilega hagkvæmum kjörum og það er í raun kannski nánast lifandi vegna þess að það hefur notið þar vildarkjara og ýmis rök eru fyrir því. En hvað verður nú um það?

Það mætti líka spyrja um grænmetið. Hvernig á að leysa þau mál, þó að það séu að vísu niðurgreiðslur, ef ég man rétt, yfir fjárlög. Ég vil líka spyrja um afgangsorkuna. Er iðnaðarráðuneytið búið að leysa það? Hvernig á að koma afgangsorkunni frá framleiðanda eins og Landsvirkjun gegnum þetta kerfi og til kaupenda úti á hinum endanum, t.d. fiskvinnslustöðvar sem hafa varaafl í dísilvélum og hafa verið góðir kúnnar Landsvirkjunar um þessa afgangsorku eða við getum næstum sagt afgangsafgangsorku? Þetta hefur verið prýðileg lausn fyrir báða aðila. Landsvirkjun losnar við hana, fær svolítið fyrir hana og varaaflið er svo á móti hjá fyrirtækjunum sem yfirleitt kaupa vegna þess að þau þurfa auðvitað að tryggja sig einfaldlega af því að samkvæmt orðanna hljóðan er um afgangsorku að ræða.

Hvað gerist núna í nýja kerfinu? Jú, þetta drukknar í hinu blinda kerfi. Það verður að fara með rafmagnið, þó það heiti afgangsorka, sömu leið í gegnum flutningsfyrirtækið og þetta verða að vera viðskipti þessara óháðu aðila og það kemst ekki á leiðarenda. Ég sé ekki alveg hvernig menn ætla að leysa það. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) upplýsti okkur í tengslum við umfjöllun um þetta mál hvernig svona hlutir standa.