Raforkulög

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 15:44:54 (2335)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[15:44]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem fær mig til að veita andsvar er að ég er ekki sammála hv. þingmanni sem síðast talaði um það að þótt breyting verði á eignarhaldi á Landsvirkjun þurfi eitthvað að rugga bátnum, eins og hv. þm. orðaði það. Það breytir ekki stöðu Landsvirkjunar að mínu viti þótt breyting verði á eigendahópnum. Ég er ekki heldur sammála því að Reykjavíkurborg hafi ekki eignast verulegar eignir í Landsvirkjun. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem um það véla hjá Reykjavíkurborg telji að það sé býsna mikils virði sem þar er.

Ég bar einu sinni fram fyrirspurn á Alþingi um eignarhaldið á Landsvirkjun. Ég gat ekki betur séð en að Reykjavíkurborg ætti þar gríðarlega stóran hlut, bæði hvað varðar fjármuni og prósentu af eign í fyrirtækinu. Það er hægt að velta þessum hlutum fyrir sér á margan máta.

Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að ekki sé rétt að láta þetta fyrirtæki á markað eða „selja“ Landsvirkjun þó að ég hafi þá skoðun að það þurfi að leysa þessa eignaraðila út úr Landsvirkjun. Ég tel ekki koma til greina að Landsvirkjun verði gerð að hlutafélagi til þess að selja á almennum markaði. Það er mín skoðun og ég er sannfærður um að það verða mikil átök ef menn ætla í þá göngu.