Raforkulög

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 16:09:18 (2345)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:09]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það verður samkeppni. Um það held ég að sé ekki nokkur spurning. Nú þegar er það komið í ljós í tengslum við a.m.k. þrjá virkjunarkosti, að þar hafa fleiri en eitt fyrirtæki gefið sig fram og óskað eftir rannsóknarleyfum. Ég held að það segi okkur að fyrirtækin eru að horfa í kringum sig. Síðan þurfum við náttúrlega að setja lög á Alþingi á þessum vetri sem segja til um hvernig við eigum að velja þann aðila sem fær rannsóknarleyfi og svo hitt hvort rannsóknarleyfi eigi að veita forgang að virkjunarleyfi.

Þetta eru stór mál sem eru fram undan og við þurfum að takast á við á Alþingi. Eins og hv. þingmenn hafa kannski séð var í gær dreift frumvarpi til laga sem lýtur einmitt að þessu. Þar er m.a. lagt til að allir þingflokkar eigi aðild að nefnd sem móti tillögur um hvernig þetta skuli vera til framtíðar vegna þess að þetta er eitt af stóru málunum sem við Íslendingar þurfum að vinna að á næstunni þar sem hér er um mikilvæga auðlind að ræða.