Gjald af áfengi og tóbaki

Mánudaginn 29. nóvember 2004, kl. 21:03:01 (2409)


131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:03]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Ég get huggað hv. þm. Birki J. Jónsson með því að þótt hann sé ekki orðinn fertugur eins og háttvirtur formaður efnahags- og viðskiptanefndar þá sýnist mér, á þeim ræðum sem þeir tveir hafa haldið hér í dag, að hann sé miklu fyrr kominn til vits og ára en hv. formaður.

Ef það er skilgreining hv. þingmanns að menn þurfi að vera orðnir fertugir til að vera komnir til vits og ára þá finnst mér, miðað við ræðuna sem hv. þingmaður fór með áðan, að hann hljóti að vera kornungur enn þá. Sú ræða bar ekki með sér að hv. þm. Pétur Blöndal væri kominn langt áleiðis á vits- og þroskabrautinni. Satt að segja fannst mér þetta ótrúleg samsuða hjá hv. þingmanni og hef ég þó margt heyrt frá honum.

Út af fyrir sig hefur það með öðru lagst á þá sveif að gera mér dagana glaða að sjá hv. þingmann koma hingað hoppandi af kæti og lýsa yfir ást sinni á ráðherrunum sem koma með þessi frumvörp. Það er út af fyrir sig gleðilegt að hv. þingmaður telji það sérstakt hátíðarefni og tilefni til fagnaðarláta að hér skuli vera á ferðinni frumvarp sem hækkar skatta allmikið.

Þetta er sérstakur gleðidagur, hlýtur að vera, hjá hv. þm. Pétri Blöndal því að hér er ekki bara eitt frumvarp sem þessi ágæti þingmaður hefur tilefni til að gleðjast yfir, ekki tvö, heldur þrjú. Á dagskrá þingsins í dag hafa verið þrjú frumvörp sem samtals hækka skattbyrði landsmanna um 640 millj. kr. Auðvitað getur hv. þm. Pétur H. Blöndal komið hingað og sagt: Þetta er bara til þess að halda í við verðbólguna og lýst því yfir að þetta sé ekki skattahækkun. Eigi að síður er hér verið að hækka álögur með þremur atlögum ríkisstjórnarinnar. Það hefði áður verið hv. þm. Pétri Blöndal tilefni til að vera dapur. Einu sinni var hann svo fúll að hann nánast bar ösku í hár sitt og reif klæði sín af sorg og sút yfir því að hér væri stöðugt verið að hækka skatta. Mig langar hins vegar, af því að hv. þingmaður er svo kátur í dag, að koma með nokkrar staðreyndir sem gætu hugsanlega dempað geð hans aðeins.

Staðan er einfaldlega sú, herra forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal og ágætir þingmenn í liði stjórnarinnar hafa glaðst ákaflega síðustu daga yfir lækkun skatta. Þegar maður skoðar skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar er ljóst að fyrst og fremst á að lækka skatta einhvern tíma í framtíðinni, rétt fyrir kosningar, hugsanlega til að ginna fleiri til að kjósa stjórnarflokkana. Þetta trix var reynt síðast og tókst með þeim ágætum að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 7%, eins og menn muna.

Við skulum skoða það sem á að koma til framkvæmda von bráðar en það er tekjuskattslækkun á næsta ári um 1%. Hún kostar 4 milljarða. Þegar maður fer hins vegar yfir þær hækkanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og væntanlega hafa orðið hv. þm. Pétri H. Blöndal til mikillar gleði á síðustu missirum þá blasir við að ríkisstjórnin hefur með hækkunum á þessu og síðasta ári halað inn fyrir skattalækkunum næsta árs. Það er merkilegt.

Mér sýnist að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafa ærið tilefni til að gleðjast meira. Þessar hækkanir ... Háreysti. Herra forseti. Formaður Samfylkingarinnar á því ekki að venjast að stjórnarliðið ljósti upp höndum með fagnaðarlátum undir ræðum hans eins og hér áðan. En kannski var það vegna þess að þeir voru sammála því sem ég er að segja um málið.

Ég var að rifja það upp að stjórnarliðið er hér að samþykkja frumvarp sem felur í sér hækkun upp á 340 millj. kr. í beinum útgjöldum landsmanna. Það felst í frumvarpinu. Samhliða hækkar neysluvísitalan um 0,08%. Ég hef fengið aðstoð töluglöggra spámanna úr liði Sjálfstæðisflokksins til að reikna út að það þýðir að skuldaklyfjar landsmanna munu á eftir, þegar stjórnarliðar samþykkja þetta frumvarp, aukast um a.m.k. 1 milljarð kr.

Fyrr í dag, eins og ég drap á í upphafi ræðu minnar, voru á dagskrá tvö frumvörp, annað um aukatekjur ríkissjóðs og hitt um bifreiðagjöld. Þessi frumvörp gera samanlagt ráð fyrir því að skattheimta ríkissjóðs aukist um 320 millj. kr. „Ódrjúg eru morgunverkin,“ sagði í Laxdælu. Þau eru ekki síðri kvöldverkin hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún er á þessum degi, áður en nótt hefst, búin að leggja fyrir Alþingi og ræða þrjú frumvörp, samþykkja eitt, sem samtals fela í sér að bein útgjöld landsmanna aukast um 640 millj. kr. og jafnframt hefur þeim tekist að auka skuldir einstaklinga, fjölskyldna og heimila um fast að milljarði. (PHB: Og fyrirtækja.)

Hvað kemur í ljós ef maður skoðar síðan hve miklar hækkanir ríkisstjórnin hefur samþykkt á þessu ári og því síðasta? Það blasir við að í dag eru það 640 millj. kr. en þær hækkanir sem við höfum verið að ræða í dag koma í kjölfar annarra hækkana sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á síðasta ári. Þar má nefna hækkun á þungaskatti, hækkun á sérstöku bensíngjaldi, lækkun vaxtabóta, afnám sérstakrar ívilnunar vegna séreignarlífeyrissparnaðar, hækkun komugjalda á heilsugæslu, auk margra annarra smærri gjalda sem voru lögfest í fyrra. Ég leyfi mér að nefna að auki frumvarp sem samþykkt var um siglingavernd. Í því voru lögð til átta ný gjöld. Þetta kallaði sá ágæti flokkur, sem hv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Einar K. Guðfinnsson, ólst upp í skjóli hjá í Essex margt fyrir löngu, taxation by stealth, þ.e. hina hljóðlátu skatta sem enginn tekur eftir sem skríða samt inn í pyngju allra og taka úr henni svolítinn bita. Þegar saman er lagt er þetta orðið ansi mikið.

Það sem skiptir máli varðandi þetta er að þegar maður reiknar saman allar þessar skattahækkanir kemur í ljós að riddarar þeir sem skolaði inn á fjörur þingsins undir því yfirskini að þeir ætluðu sér að lækka skatta, menn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri, hafa með fjárlögum sem verið er að samþykkja og ýmsu öðru sem þeir hafa samþykkt líka farið í allt aðra átt. Þeir standa ekki einu sinni á núlli. Miðað við skattalækkunina sem á að kosta 4 milljarða kr. og koma til framkvæmda á næsta ári munu Íslendingar, þegar þeir fagna lokum ársins 2005, standa andspænis lagafrumvörpum sem þessir ungu herramenn hafa samþykkt sem fela það í sér að skattaálögur hafa aukist um 1 milljarð kr. Þetta er skattabyltingin sem hæstv. fjármálaráðherra talaði svo fjálglega um í musteri flokksins, í Valhöll, á laugardaginn. Svo undraðist hann að þjóðin skyldi ekki standa upp, stappa niður fótum og ljósta saman höndum af fögnuði. Það er vegna þess að þjóðin er skynsamari en hæstv. fjármálaráðherra hefur e.t.v. gert sér grein fyrir. Þjóðin sér skattalækkanir í framtíðinni, undir lok kjörtímabilsins, en hver veit hver staðan verður þá? Skoðið bara, góðir hálsar sem eruð að hlusta á mig hér í kvöld, greininguna frá Íslandsbanka í dag og veltið fyrir ykkur hver staðan verður þá.

Það sem við höfum í hendi er það sem hefur verið samþykkt til hækkunar eða lækkunar á þessu ári og í besta falli á hinu næsta. Þá kemur í ljós, þegar allt er samanlagt og frádregið, þegar við erum búin að fara í debet og kredit er niðurstaðan sú að ríkisstjórnin verður við lok næsta árs búin að hækka skatta á landsmenn. Það er öll skattabyltingin.

Svo kemur vesalings hæstv. fjármálaráðherra í Morgunblaðinu og fær þar stóra frétt á síðu 2 á tveimur hæðum, gamli Morgunblaðsunginn — ég leyfi mér ekki að segja Morgunblaðstitturinn — og kvartar og vælir undan því andspænis allri þjóðinni að verið sé að þagga niður skattabyltinguna.

Má ég spyrja ykkur, ungu herramenn Sjálfstæðisflokksins, hina ungu þingmenn: Hver er skattabyltingin í ár og á næsta ári? Þið eruð ábyrgir fyrir því að hafa dregið þjóðina á asnaeyrum. Þegar upp verður staðið hafið þið við lok næsta árs aukið skattheimtu á landsmönnum um 1 milljarð kr. jafnvel þótt tekið sé tillit til 2% lækkunar á hátekjuskatti og 1% lækkunar á tekjuskattshlutfallinu. Þetta eru afrek ykkar. Komið svo hingað og berjið ykkur á brjóst og talið um skattabyltingu. Nei, Íslendingar eru klárari en hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa bersýnilega gert sér grein fyrir. Þeir hafa ekki staðið á öndinni yfir þessari skattabyltingu vegna þess að þeir vita að hún er enn þá furðufugl í skógi og ekkert annað.

Herra forseti. Af alveg sérstökum ástæðum ætla ég ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég hef komið þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég tel að eigi erindi í þessa umræðu. Mér þykir auðvitað fyrir því ef ég hef raskað ró hinna ungu hvítu riddara Sjálfstæðisflokksins sem lofuðu skattabyltingu, skattabyltingu sem þjóðir skynjar ekki á sínu eigin hörundi.

Ég vil koma einu á framfæri að lokum. Ég vil að það komi fram að ég er sammála þeirri afstöðu sem birtist í skattbreytingum og skattstefnunni gagnvart áfengum drykkjum og tóbaki hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég tel að ef menn ætla á annað borð að skattleggja áfengi sé betra að skattleggja sterka drykki en létt áfengi. Að því leyti er ég sammála hæstv. ráðherra og finnst það mjög jákvætt.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, alveg eins og hæstv. ráðherra var fyrir tveimur árum, í nóvember 2002 þegar við vorum síðast í svona bixi, að ef á annað borð á að auka tekjur ríkissjóðs með því að hækka tóbaks- og áfengisgjald þá eigi að láta það koma harðar niður á tóbaki. Ástæðan er sú að ég tel að það sé miklu meiri skaðvaldur en áfengið. (SKK: Neftóbakið líka?) Neftóbakið líka, og kannski ekki síst það, hv. þingmaður. Síðast þegar við vorum að þessu leiddi það til þess að smásöluverð á sterku víni hækkaði um nálega 10% en tóbak um 12% að jafnaði. Áherslan á tóbakið var miklu þyngri. Ég sagði við þá umræðu að ég teldi vel hægt að rökstyðja að hafa hækkunina meiri á tóbak en á áfengu drykkina. Ég er enn þeirrar skoðunar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé farsælla frá heilbrigðissjónarmiði að auka fremur álögur á tóbak en vín en þegar við skoðum það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu sést að stefnan frá því í nóvember 2002 er þveröfug, þ.e. nú hækkar verð á tóbaki töluvert minna en á sterku drykkjunum. Ég vil að það komi skýrt fram að þetta er stefna sem við í Samfylkingunni erum andvíg. Talsmönnum hæstv. fjármálaráðherra tókst ekki að skýra þetta út í efnahags- og viðskiptanefnd. Við viljum í sjálfu sér ekki tefja afgreiðslu málsins með því að fá aðra til fundar við nefndina til að veita okkur upplýsingar um þetta. Það væri samt þarft, ef hæstv. fjármálaráðherra kýs að taka til máls síðar við þessa umræðu, að hann skýrði út fyrir okkur þessa pólitísku stefnubreytingu. Ég lít á þetta sem pólitíska stefnubreytingu. Þarna er breytt um áherslur varðandi þessi gjöld. Ég tel að sú átt sem hæstv. fjármálaráðherra lullar nú í sé ekki farsæl.