Gjald af áfengi og tóbaki

Mánudaginn 29. nóvember 2004, kl. 21:19:09 (2411)


131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:19]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er viss um að forseti þingsins minnist þess þegar Halldór Laxness talaði um 111. meðferð á skepnum. Þessi orð Laxness rifjast upp fyrir mér þegar ég hlusta á þennan unga þingmann koma með saltbaukinn og strá úr honum í sár framsóknarmanna. Hann dregur fram með umræðu sinni um matarskattinn að í þessum sal eru allir með því að helminga matarskattinn nema Framsóknarflokkurinn.

Menn tóku kannski eftir því að ég nefndi ekki matarskattinn í ræðu minni, af því að ég vildi ekki lengja umræðuna. En hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vakti sérstaklega athygli á því að ríkisstjórninni hefði ekki tekist að lækka matarskattinn og Samfylkingin væri alltaf með það á vörunum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Samfylkingin er stöðugt að tala um það, alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði í kosningabaráttunni þar sem hann setti það mál númer eitt, og í þessum sölum hafa talsmenn allra flokka lýst stuðningi við að helminga matarskattinn nema Framsóknarflokkurinn. Það sýnir hins vegar heilindin í stjórnarsamstarfinu hjá þessum unga þingmanni að hann kemur hingað og gerir grín að Framsóknarflokknum, kemur með saltbaukinn og stráir og stráir.

Herra forseti. Auðvitað er dapurlegt að hugsa til þess að þegar næsta ári sleppir hefur þessi hv. þingmaður afrekað að hafa greitt atkvæði með skattalækkunum og skattahækkunum. Þegar allt er talið saman, allar skattalækkanirnar og allar skattahækkanirnar, hefur hann, maður sem ætlaði að fremja skattbyltinguna miklu, hækkað skatta á landsmenn um 1 milljarð. Svo kemur hann hingað og gerir grín að Framsóknarflokknum.