Gjald af áfengi og tóbaki

Mánudaginn 29. nóvember 2004, kl. 21:21:16 (2412)


131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:21]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig náttúrlega ekki alveg á þessu. Það er hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hann nefndi ekkert matarskattinn. Maður verður að fylgjast betur með, þeir eru væntanlega hættir við hann. Samfylkingin talaði nefnilega fyrir kosningar um að lækka tekjuskattinn. Samfylkingin er hætt við það og síðast þegar ég vissi var hún að tala um að lækka matarskattinn.

Það uppgötvaðist ekki fyrr en núna, af því að mönnum er kannski ekkert ofsalega mikið í mun að hlusta á Samfylkinguna almennt fyrir kosningar, en menn fóru þó að rifja upp hvað hún sagði um matarskattinn fyrir kosningar. Þá sögðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar eins skýrt eins og getur orðið þegar þeir voru spurðir hvort þeir vildu lækka skattinn: Nei. Eitt orð, nei. Það var svo einfalt. Síðan hefur það að vísu verið upplýst sem allir vita að samstaða er um það innan ríkisstjórnarinnar og kom fram hjá forustumönnum Framsóknarflokksins hvað varðar virðisaukaskatt á matvæli.

Ég vil vekja athygli á þessum endalausa hringlandahætti í þessum blessaða flokki, Samfylkingunni, sem hefur algjörlega upplýst fyrir þjóðinni að allar þær tillögur og stefnur í helstu málaflokkum gamla Alþýðubandalagsins eru teknar upp núna af Samfylkingunni. Við þekkjum það í utanríkismálunum, það var farið ágætlega yfir það. Hér áður fyrr var nefnilega til flokkur sem hét Alþýðuflokkurinn og er að vísu enn þá til og formaðurinn er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sem hafði það að stefnumarki sínu að fara með tekjuskattinn niður í 35% síðast þegar hann var hækkaður upp.

En hver er staðan núna? Hv. þingmenn hafa hvað eftir annað lýst því yfir að þeir vilji halda tekjusköttum á almenningi eins háum og mögulegt er og það er ekkert að marka hvað þeir sögðu fyrir kosningar.