Gjald af áfengi og tóbaki

Mánudaginn 29. nóvember 2004, kl. 21:28:39 (2415)


131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:28]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki til hvers hv. þingmaður var að beina orðum sínum þegar hann talaði um liðleskjur, hvort það vorum við í Samfylkingunni eða hvort það voru samstarfsmenn hans í Framsóknarflokknum, sem eru reyndar líka samstarfsmenn mínir í ráðhúsinu.

En að því er varðar hækkun á leikskólagjöldum segi ég eins og ég hef áður sagt við hv. þingmann: Spyrjum að leikslokum.

Að því er varðar útsvarshækkanir lýsi ég allri ábyrgð á henni á hendur hv. þingmanni og nótum hans í stjórnarliðinu. Ríkisstjórnin er að þvinga sveitarfélögin til skattahækkana með því að svelta sveitarfélögin. Á sama tíma og verið er að verja 39 milljörðum í skattalækkanir, samkvæmt a.m.k. þeim orðum sem standa á pappírnum í fjárlagafrumvörpum og ýmsum frumvörpum, er ekki til túskildingur með gati handa sveitarfélögunum. Núverandi ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra eru að knýja sveitarfélögin í landinu til útsvarshækkana.

Herra forseti. Lykilspurning hv. þingmanns var þegar hann leit til liðinna daga og spurði, með leyfi forseta: Hvað vorum við að gera? Það er von að hv. þingmaður spyrji. Hvað er hann að gera hérna alla daga? Hvað hefur hann verið að gera síðan hann kom á þing?

Ég get upplýst hv. þingmann um það. Hann hefur verið að hækka skatta. Hv. þingmaður hefur hækkað þungaskatt, hækkað sérstakt bensíngjald, hann hefur staðið fyrir skattahækkun sem felst í lækkun vaxtabóta, í afnámi sérstakrar ívilnunar vegna séreignarlífeyrissparnaðar, hann hefur hækkað komugjöld á heilsugæslustöðvar og var um daginn líka að hækka skólagjöld.

Þetta hefur hv. þingmaður verið að gera. Og þegar maður reiknar saman hvað skattahækkanir hans kosta landsmenn og dregur frá því hvað lofaðar skattalækkanir fram til loka næsta árs kosta, kemur í ljós að þessi ungi maður ber ábyrgð á því að hafa hækkað álögur á landsmenn um heilan milljarð. Það var það sem hv. þingmaður var að gera.