Gjald af áfengi og tóbaki

Mánudaginn 29. nóvember 2004, kl. 21:35:12 (2418)


131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:35]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styður tillögur sem liggja hér fyrir um hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi til samræmis við verðlagshækkanir síðustu tvö ár. Þetta er í góðu samræmi við norræna áfengisstefnu og í þeim anda sem heilbrigðisráðherrar Norðurlanda hafa stefnt að.

Ég þarf í rauninni ekki að gera grein fyrir ástæðunum sem liggja að baki afstöðu okkar því það var gert ágætlega hér í dag. En mig langar til þess að upplýsa hv. þingmenn um að á nefndarfundinum var töluvert rætt um athugasemdir sem komu fram í þingsalnum í dag um verklagið sem er viðhaft þegar verið er að hækka gjöld af þessu tagi og er fólgið í því að setja sérstakan þingfund og setja málið á dagskrá klukkan sex að kvöldi og sigla inn í nóttina með það.

Á fundinum upplýsti forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að þetta væri í rauninni óþarft vegna þess að áfengisverslanir eru opnar lengur en til klukkan sex, þannig að ástæðan fyrir þessu er ekki fyrir hendi eins og lýst er. Ég vil hvetja til að verklagi verði breytt næst þegar þessum gjöldum verður breytt. Þá mun kannski gefast færi á, hv. þingmaður, að ræða um stefnu í áfengis- og tóbaksmálum, þeim stóru málum, þegar verið er að hækka þessi gjöld.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér áðan að rík efni væru til að breyta og hækka álögurnar á tóbakið enn frekar en hér er gert vegna þess að margoft hefur verið sýnt fram á mjög sterk tengsl milli verðlags á tóbaki og tóbaksnotkunar.

En þegar málið er þannig í pottinn búið sem hér er og verklagið er samkvæmt hefðinni, þá gefst ekki færi á að ræða þessa hluti. En við styðjum að þessi gjöld haldi raungildi sínu á sterku víni og tóbaki.