Málefni aldraðra

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004, kl. 16:35:44 (2443)


131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[16:35]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá heilbrigðisnefnd um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum

Með þessu frumvarpi sem er hefðbundið, en slíkt frumvarp er lagt fram árlega, er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 2,9%, þ.e. 162 kr. á hvern gjaldanda, úr 5.576 kr. í 5.738 kr. Hækkunin er í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar en gert er ráð fyrir að byggingarvísitala hækki um 2,9% frá meðalverði ársins 2004 til meðalverðs ársins 2005.

Heilbrigðisnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir álitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Pétur H. Blöndal, Siv Friðleifsdóttir og síðan hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir, öll með fyrirvara.

Að þeim orðum sögðum, herra forseti, vildi ég í tilefni af þessu máli, sem er hefðbundið þegar hv. heilbrigðisnefnd fjallar um þessa breytingu sem kallað er á að skuli gerð með lögum hverju sinni, að hækka þetta gjald til samræmis við verðlag, hafa nokkur orð um framkvæmdasjóðinn og ekki síður um svokallað samkomulag við aldraða, þ.e. tillögur samstarfshóps sem í átti sæti Landssamband eldri borgara sem skilaði tillögum árið 2002 í níu liðum. Þegar þetta mál er tekið fyrir í nefndinni verða gjarnan nokkrar umræður um hvernig hafi gengið að standa við þetta samkomulag og hvað sé búið að efna af því sem samkomulagið nær til.

Það kom fram í yfirferð nefndarinnar núna, og hjá þeim gestum sem við fengum á fund nefndarinnar út af þessu máli frá Landssambandi eldri borgara, að það eina sem stendur út af borðinu í samkomulaginu er 9. liðurinn, sem fjallar um sveigjanleg starfslok. En það mál er til skoðunar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Hluti af þessu samkomulagi og einn liðurinn laut að breyttu hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þeim tillögum var mætt með breytingum sem voru samþykktar á vorþingi 2004. Þar var m.a. tekið á því að breyta hlutverkinu þannig að sjóðurinn fengi það formlega hlutverk að greiða öldrunarstofnunum húsnæðisframlag eða leiguígildi sem stæði undir viðhaldskostnaði og stærstum hluta fjárfestingarkostnaðar vegna nýrra hjúkrunarheimila. Þannig heimila lögin núna framkvæmdasjóðnum að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili sem samþykkt er að byggja 1. janúar 2005 á kostnað annarra en ríkisins.

Í öðru lagi var tekin upp greiðsla húsnæðisgjalds. Því gjaldi er ætlað að standa undir almennu viðhaldi öldrunarheimila. Það gjald var tekið upp á árinu 2003. Á því ári námu greiðslur á húsnæðisgjaldi til öldrunarheimila samtals um 280 millj. kr. Þar af var hlutur framkvæmdasjóðsins um 188 millj. kr.

Í þriðja lagi hefur þátttaka Framkvæmdasjóðs aldraðra í almennum rekstri hjúkrunarheimila verið minnkuð verulega frá árinu 2002. Þá var hún 409 millj. kr. en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu núna er gert ráð fyrir því að hlutur sjóðsins í almennum rekstri verði einungis 231 millj. kr. Framlög til stofnkostnaðar og viðhalds hjá Framkvæmdasjóði aldraðra námu 312 millj. kr. á árinu 2002 en nema 696 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu núna.

Allt þetta skilar sér í því, ásamt framlögum á fjárlögum, að hægt er að standa við þann hluta samkomulagsins sem gekk út á það að hjúkrunarrýmum á árunum 2003–2005 skyldi fjölgað um 150–200. Hjúkrunarrými sem ráðist hefur verið í að byggja nema samtals 168 rýmum á árunum 2004–2005 og árlegur rekstrarkostnaður þeirra nemur 803 millj. kr. á verðlagi ársins 2004. En til viðbótar þeim 168 rýmum sem ég nefndi hafa orðið til 28 rými með því að dvalarrýmum hefur verið breytt í hjúkrunarrými.

Í fjárlögum ársins 2004 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir 437 millj. kr. stofnframlagi til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Þetta gerir samtals, á þessum tveimur árum, 875 millj. kr. Hluta af þessu framlagi verður varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu á Akureyri. Sú framkvæmd er í gangi og hins vegar, sem er sérlega gleðilegt og lengi búið að bíða eftir, er ákveðið að hluti fari til uppbyggingar öldrunarþjónustunnar í Reykjavík. Þar er næsti áfangi í verulegri uppbyggingu slíkrar þjónustu enda hafa biðlistar á höfuðborgarsvæðinu verið lengstir og þörfin þar verið mest. Áformað er að hefja framkvæmdir við uppbyggingu rúmlega 100 hjúkrunarrýma í Reykjavík á næsta ári og það eru rými sem ættu að komast í notkun um áramótin 2006/2007.

Þessu vildi ég halda til haga, herra forseti, í tengslum við álit heilbrigðis- og trygginganefndar um hækkun gjaldsins í Framkvæmdasjóð aldraða, ekki síst vegna þess að iðulega kemur upp umræða um efndir á samkomulaginu við aldraða. Ljóst er að átta liðir af níu hafa verið efndir og við erum að ná miklum árangri í að stytta verulega biðlista eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu.