Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 13:46:44 (2937)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vestmannaeyjar hafa á undanförnum árum háð mjög harða varnarbaráttu fyrir tilvist sinni eins og svo margar sjávarbyggðir á Íslandi. Íbúum þar hefur fækkað. Ég hygg að þeir séu núna jafnfáir og þeir voru eftir að Heimaeyjargosinu lauk fyrir rúmum 30 árum.

Óþarfakvótasetningar á fisktegundir eins og kolmunna, skötusel, keilu og löngu hafa að sjálfsögðu lagt hömlur á atvinnufrelsi Vestmannaeyinga. Hér er hv. formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Hann lofaði því fyrir síðustu kosningar að hann mundi beita sér fyrir því að afnema þessar kvótasetningar. Ekki hefur orðið mikið vart við efndir á þeim loforðum fram til þessa en það yrði að sjálfsögðu mikil vítamínsprauta fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum.

Atvinnulíf er hins vegar ekki nóg, við verðum líka að tryggja samgöngur. Hér eru til umræðu siglingar til og frá Vestmannaeyjum. Enginn efast um að siglingarnar eru sjálfur þjóðvegurinn til og frá Eyjum. Það er að sjálfsögðu skylda ríkisvaldsins að tryggja að þessi þjóðvegur sé sem greiðastur allan ársins hring.

Því ber að fagna að ferðum með Herjólfi hefur verið fjölgað. Hins vegar verða stjórnvöld núna að setjast niður og vinna mjög markvisst og ákveðið að framtíðarstefnumótun fyrir samgöngur til og frá Vestmannaeyjum. Við verðum að fara að íhuga það að skipta Herjólfi hugsanlega út, fá nýtt, stærra og hraðskreiðara skip. Herjólfur er of lítill. Við verðum að skoða möguleikana á því að grafa jarðgöng til Vestmannaeyja. Við verðum líka að athuga möguleikann á því að höfn verði gerð við Bakkafjöru.

Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir framtíð Vestmannaeyja og hérna verður að fara að taka ákvörðun, ákvörðun til framtíðar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að jarðgöng séu besti kosturinn.