Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 13:48:51 (2938)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:48]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna umræðu um samgöngur við Vestmannaeyjar og þakka þann vilja sem hér kemur fram, bæði hjá hæstv. samgönguráðherra og þingmönnum, að bæta enn frekar samgöngur við Vestmannaeyjar. Það er stórt mál. Auðvitað er Herjólfur þjóðvegur Eyjanna. Herjólfur er þeirra Hellisheiði. Það skiptir mjög miklu máli, nú þegar farið verður yfir nýtt útboð á Herjólfi, að skoða vel forsendur útboðsins þannig að hann geti þjónað sem allra best íbúum Eyjanna, ferðaþjónustunni og atvinnulífinu. Þarna þarf að taka á og endurskoða. Svo þarf auðvitað að fara vel yfir þá ferðakosti sem Eyjamenn eiga, bæði flugið að Bakka og hingað til höfuðborgarinnar, þess vegna á Selfoss. Ekki eru margar eyjar byggðar og við þurfum að huga vel að samgöngum við þær eyjar sem enn eru í byggð í landinu, efla þær og styrkja.

Svo er hitt auðvitað framtíðin, hinar stóru forsendur sem menn ræða um, Bakkafjara og jarðgöng milli lands og Eyja. Það er auðvitað enn þá fjarlægur draumur þannig að menn mega ekki gleyma sér í þeirri umræðu. Margt getur líka nýtt gerst. Ég hef fylgst með skemmtilegu verkefni nemenda í Háskólanum á Bifröst sem hafa verið að skoða þessa miklu tækni sem Bretar eru að hanna og bjóða upp á, „skycat“, þ.e. loftfar sem tekur mikið af bílum og mikið af fólki og er hugsað sem framtíðarfarkostur. Það er virkilega skemmtilegt verkefni sem Háskólinn á Bifröst vinnur að og skoðar sérstaklega út frá forsendum og samgöngum við Vestmannaeyjar, milli Vestmannaeyja og lands. (Gripið fram í.)

Ég þakka þessa umræðu og vona að þetta fái farsæla lausn og að samgöngur batni enn við Eyjarnar.