Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 13:53:31 (2940)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:53]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er skiljanlegt að samgöngumál séu Vestmannaeyingum hugleikin þar sem þeir búa við allt aðrar aðstæður í þeim efnum en meginþorri landsmanna. Nútímaþjóðfélag byggir á öruggum og hraðvirkum samgöngum og krafa íbúa og fyrirtækja, hvar sem þau eru, er að þjóðvegurinn til þeirra sé greiðfær alltaf þegar raunhæft er að gera kröfu um slíkt vegna umhverfisaðstæðna. Um Vestmannaeyjar gildir ekkert annað lögmál. Þeir sem þar búa hafa uppi sömu væntingar og kröfur til þjóðvegakerfisins sem á þessari stundu er ferjan og flugsamgöngur. Vonir og væntingar standa til að samgöngur verði tryggðar eins ört og örugglega og nokkur kostur er.

Nú þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hætta strandsiglingum og færa flutninga að mestu yfir á þjóðvegina hlýtur það að kalla á að þjóðvegurinn til Eyja verði styrktur frá því sem verið hefur og Herjólfi gert kleift að auka frekar tíðni ferða til að mæta a.m.k. þeirri minnkun á flutningsgetu sem leiðir af niðurfellingu strandflutninga.

Í nýju útboði sem fyrirhugað er í janúar 2006 hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir að ferjan gangi að lágmarki til 2–3 ferðir á hverjum sólarhring til að halda þjóðveginum til og frá Eyjum opnum með skammlausum hætti.

Öflugar og tryggar flugsamgöngur eru hraðvirkasta leið Eyjamanna til lands, og nauðsynlegt í ljósi sérstöðu þeirra að hlúa sérstaklega að því að framboð haldist í hendur við eftirspurn. Það hlýtur alltaf að vera hlutverk opinberra aðila að leita allra leiða til að halda niðri kostnaði þeirra sem greiða fyrir samgöngur til og frá stöðum þar sem ekki er um það að ræða að hægt sé að setjast upp í einkabílinn hvenær sem mönnum hugnast og aka á þann stað sem hugurinn stendur til.

Við höfum rætt á Alþingi um kostnað þeirra sem nýta göngin undir Hvalfjörð og hvort unnt sé að leita leiða til að minnka hann. Þeir sem þau göng nota hafa þó annan valkost sem er að nýta þjóðvegakerfið fyrir fjörðinn og eiga því val um hvaða leið er notuð með tilliti til ferðatíma og kostnaðar. Þetta val, frú forseti, eiga Vestmannaeyingar ekki og eðlilegt er að það sé haft í huga þegar fjallað er um ferðamöguleika þeirra og kostnað.