Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 13:58:00 (2942)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:58]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál til umræðu. Eins og kom fram í máli þingmannsins er rótin fyrir þessari umræðu sú staðreynd að Eimskipsmenn hafa ákveðið að hætta strandsiglingum. Þá kom einnig fram í máli hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar að allt að 10 40 feta gámar hafa verið fluttir með skipi Eimskips fram til þessa en nú er svo komið að þessar ferðir leggjast niður. Því tel ég ráðlegt í þessari umræðu að við beinum spjótum okkar að þeim vanda sem er upp kominn og er ástæðan fyrir því að þetta er til umræðu.

Það kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að skipið er nýtt 7–12 klukkustundir á sólarhring sem segir okkur að það er pláss fyrir sýnu meira. Því vil ég beina því til samgönguráðherra að horfa til þeirrar leiðar að auka við ferðir til að tryggja að atvinnufyrirtæki í Vestmannaeyjum fái sömu þjónustu og þau fengu fyrir þá ákvörðun Eimskipsmanna að hætta strandflutningum. Nógu erfitt eiga atvinnuvegirnir í dag með þá hagstjórn sem er við lýði. Hér er sterk staða krónunnar og ekki er á það bætandi fyrir Vestmannaeyinga að samgöngur skuli daprast með þeim hætti sem raunin er.

Menn hafa rætt um að skipið sé komið til ára sinna. Ég held að 12 ára skip eigi allmikið eftir og að kannski megi liggja á milli hluta að fara að breyta um farkost hvað það varðar. Ég vil styðja þær hugmyndir sem ráðherra kom inn á í máli sínu áðan um að skoða eins hratt og auðið er tilveru ferjuhafnar á Bakka en umfram allt í þessari umræðu verður niðurstaðan að verða sú að samgönguráðherra íhugi alvarlega — og ég veit að Samskipsmenn mundu taka honum fagnandi — að setjast niður með þeim og ræða alvarlega hvort ekki sé tilefni til að fjölga ferðum milli lands og Eyja. Þá er ég að tala um Herjólf, herra forseti.