Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:04:26 (2945)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[14:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir við þeim ákvörðunum sem ég hef tekið hvað varðar úrbætur í samgöngumálum Vestmannaeyja. Það er alveg ljóst að það er mikill vilji eins og skýrt hefur komið fram í umræðum á Alþingi um samgöngumál Vestmannaeyinga. Þingmenn vilja standa vel að verki þar, og ég tel að svo hafi verið gert.

Það er nauðsynlegt að vandamálin séu ekki gerð meiri en þau eru. Það liggur ljóst fyrir að flutningar verða með sama hætti áfram hvað varðar flutninga til meginlands Evrópu en fjölgun ferða Herjólfs er m.a. til að koma til móts við fyrirtæki sem þurfa að koma framleiðslu sinni í veg fyrir skip sem sigla til Ameríku. Auðvitað þurfum við að meta stöðuna. Það liggur í hlutarins eðli að það er afar mikilvægt fyrir okkur að standa þannig að verki að atvinnufyrirtækin í Vestmannaeyjum, sjávarútvegsfyrirtækin í Vestmannaeyjum, geti bæði fengið aðföng og komið framleiðslu sinni á markað með sem hagkvæmustum hætti.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að eyjasamfélagið er auðvitað með sínum takmörkunum og samgöngur geta aldrei verið með sama hætti og út á hina stóru markaði eins og er á höfuðborgarsvæðinu. Það skilja allir.

Aðalatriði málsins er að unnið er eftir skýrum áætlunum, ég vil að það komi skýrt fram vegna orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það er unnið eftir tillögum sem voru settar upp í góðu samstarfi við heimamenn og ég vænti þess að það geti orðið samkomulag um það sem kemur út úr rannsóknum hvað Bakkafjöru varðar.

Áfram verður unnið að því að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Það eru skilaboðin sem koma úr samgönguráðuneytinu.