Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:43:06 (2963)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi.

320. mál
[14:43]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Fjármálaeftirliti, Kauphöll Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra lífeyrissjóða, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjárfesta og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna sem byggist á skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Líkt og segir í inngangi athugasemda við frumvarpið þá eru álagningarhlutföll lækkuð en lágmarksgjöld eru óbreytt að því undanskildu að lagt er til að lágmarksgjald vegna vátryggingamiðlara hækki úr 150 þús. kr. í 200 þús. kr. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald hækki úr 289,5 millj. kr. árið 2004 í 298 millj. kr. árið 2005, eða um tæp 3%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 288,7 millj. kr. en 309,5 millj. kr. á því næsta sem er um 7% hækkun. Fyrir liggur samþykkt samráðsnefndar á þessum gjöldum.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um málið eru lagðar til tvær breytingar varðandi orðalag sem nefndin telur rétt að fallast á. Annars vegar að áréttað verði með breytingu á 4. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. að álagningarstofn eftirlitsgjalds sjóða sem þar eru taldir upp sé samanlagðar eignir rekstrarfélags og viðkomandi sjóða. Hins vegar að breytt verði orðalagi 9. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. til samræmis við útvíkkað eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins gagnvart Íbúðalánasjóði eftir að lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, var breytt með lögum nr. 57/2004.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. 3. málsl. 4. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. orðist svo: Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,00988% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóðs samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 400.000 kr.

2. Síðari málsliður 9. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. orðist svo: Íbúðalánasjóður skal greiða 0,0011% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.

Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson og Einar Már Sigurðarson skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram breytingartillögur við málið.

Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með sama fyrirvara og framangreindir nefndarmenn.

Undir nefndarálitið rita Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Siv Friðleifsdóttir, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara.