Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:46:55 (2964)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi.

320. mál
[14:46]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals er stjórnarandstaðan með fyrirvara við frumvarpið. Hann hefur gert grein fyrir ýmsum efnisbreytingum sem verið er að leggja til og lúta fyrirvarar okkar — ég held að ég geti fullyrt fyrir hönd annarra — ekki að þeim í sjálfu sér, heldur fyrst og fremst að því hve seint málið er fram komið. Samhliða rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins ber því að leggja fram skýrslu um starfsemi sína og við teljum mjög mikilvægt að þessi skýrsla hefði komið fram fyrr og fengið ítarlegri og þar af leiðandi vonandi vandaðri umfjöllun. Í þessu felst ekki gagnrýni á innihald skýrslunnar, heldur fyrst og fremst á hve seint ráðuneytið og þeir aðilar sem að þessu standa hafa lagt þetta mál fram.

Fyrirvari minn snýr einnig að öðru. Við lögðum fram tillögu til þingsályktunar fyrr í haust, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, sem snýr að Fjármálaeftirlitinu. Við viljum kanna leiðir til að efla sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við hefðum talið eðlilegt að sú umfjöllun hefði farið fram hér í þingsal samhliða þessari skýrslu. Í þingsályktunartillögu okkar segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði. Nefndin geri tillögur um hvernig sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði best tryggt og starfsemi þess efld. Í því skyni skoði nefndin m.a. stjórnsýslulega stöðu þess og hvort heppilegast sé að það heyri undir Alþingi.“ — Þá í stað þess að heyra undir ráðuneyti.

Þetta er einfaldlega umræða sem við teljum mjög brýnt að fari fram í þinginu og að þessi tillaga til þingsályktunar verði tekin til afgreiðslu. Það þekkja allir þær miklu hræringar sem hér eiga sér stað í efnahagslífinu og í fjármálalífi þjóðarinnar og ég held að það sé almennt viðurkennt að þar hafi Fjármálaeftirlitið mikilvægu hlutverki að gegna. Ég held enn fremur að flestir séu á þeirri skoðun að það sé nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði þeirrar stofnunar gagnvart aðilum á markaði en einnig pólitísku framkvæmdarvaldi og þess vegna viljum við láta skoða það sérstaklega hvort rétt sé að þessi stofnun heyri beint undir Alþingi.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál en vildi aðeins gera grein fyrir þessum almennu viðhorfum.