Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 15:02:54 (2966)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi.

320. mál
[15:02]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þessar ábendingar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það að skýrslur sem oft innihalda mjög mikilvægar og verðmætar upplýsingar og eru frá fólki sem er með fingurna á púlsinum, ef svo má segja, ætti að sjálfsögðu að ræða. Ég er ekki alveg sammála því að þær eigi að ræða í tengslum við þetta frumvarp sem fjallar um greiðslu kostnaðar og þarf að afgreiða áður en þingið lýkur störfum fyrir áramót. Hins vegar gæti ég vel hugsað mér að ræða þessa skýrslu á fundum nefndarinnar sem ætti þá að halda í þinghléinu. Ég vildi gjarnan eiga gott samstarf við hv. nefndarmenn um það atriði. Það hefur verið reynt áður og gekk reyndar illa að ná saman fundi en vonandi tekst betur til í þessu þinghléi.

Varðandi það hvort önnur fjármögnun eftirlitsaðila kæmi til greina er það líka mjög athyglisverð hugsun sem er þó þessu máli ótengd. Það er sjálfstætt efni sem mætti ræða í tengslum við það ef það mál sem hv. þm. nefndi kemur til umfjöllunar á þinginu, þingsályktun um hvort eigi að haga fjármögnun með þeim hætti að eftirlitsskyldir aðilar borgi, hvort það komi beint úr ríkissjóði eða með öðrum hætti.