Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 21:41:01 (3038)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[21:41]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að við ræðum þessi þrjú mál öll í einu. Þetta eru samkynja frumvörp og í raun alveg nákvæmlega eins. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að við ræðum saman frumvörp um Háskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskólann á Akureyri.

(Forseti (HBl): Ef ekki er gerð athugasemd við það þá mælir hv. þingmaður fyrir öllum málunum samtímis.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir.

Fyrsta málið er frumvarp til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, með síðari breytingum.

Frumvarpið hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. gr.

Í stað fjárhæðarinnar „32.500 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 45.000 kr. fyrir heilt skólaár.

2. gr.

Lög þessi taka gildi 1. janúar 2005.

Nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar hljóðar svo, með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Pál Skúlason og Tryggva Þórhallsson frá Háskóla Íslands, Ólaf Proppé og Guðmund Ragnarsson frá Kennaraháskóla Íslands, Þorstein Gunnarsson og Úlfar Hauksson frá Háskólanum á Akureyri, Erlu Ósk Ásgeirsdóttur og Jarþrúði Ásmundsdóttur frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Jónínu Brynjólfsdóttur frá Iðnnemasambandi Íslands og Eyrúnu Jónsdóttur frá Bandalagi íslenskra námsmanna.

Umsagnir bárust nefndinni frá Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Iðnnemasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi íslenskra námsmanna, skólafélagi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Visku – félagi stúdenta við Háskólann í Reykjavík, stúdentaráði Kennaraháskóla Íslands, stúdentaráði Háskóla Íslands og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð skrásetningargjalds verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. á heilu skólaári.

Meiri hlutinn bendir á að orðin „allt að“ í 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. laganna séu óþörf enda liggur nú fyrir að fjárhæð skrásetningargjaldsins er lægri en kostnaðurinn við skrásetningu samkvæmt nánar sundurliðuðu yfirliti sem birtist í fylgiskjali I með frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. gr. orðist svo:

Í stað orðanna: „allt að 32.500 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 45.000 kr. fyrir heilt skólaár.

Undir þetta skrifa Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, með fyrirvara, Birkir J. Jónsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Síðan er hér frumvarp á þskj. 395 um breytingu á lögum um Kennaraháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Þar eru 1. og 2. gr. alveg samhljóða frumvarpinu um Háskólann.

Svo er nefndarálit frá meiri hluta menntamálanefndar þar sem segir að nefndin hafi fjallað um málið og fengið á sinn fund sömu gesti og áður voru nefndir og sömu umsagnir.

Svo segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð skrásetningargjalds verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. á heilu skólaári.

Meiri hlutinn bendir á að í 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að skrásetningargjald skuli ekki vera hærra en sem nemur þeirri fjárhæð sem þar um ræðir. Meiri hlutinn telur að umorða þurfi setninguna þar sem nú liggur fyrir að fjárhæð skrásetningargjaldsins er lægri en kostnaður við skrásetningu samkvæmt nánar sundurliðuðu yfirliti sem birtist í fylgiskjali I með frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. gr. orðist svo:

3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Fjárhæð skrásetningargjalds er 45.000 kr. fyrir heilt skólaár.

Undir þetta skrifa Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, með fyrirvara, Birkir J. Jónsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Þriðja frumvarpið er frumvarp til laga um breyting á lögum um Háskólann á Akureyri, nr. 40/1999, með síðari breytingum. Þar eru sömu gestir og voru á hinum nefndarálitunum og gefa samhljóða umsagnir, sem eru eftirfarandi:

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð skrásetningargjalds verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. á heilu skólaári. Meiri hlutinn bendir á að orðin „allt að“ í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna séu óþörf, enda liggur nú fyrir að fjárhæð skrásetningargjaldsins er lægri en kostnaðurinn við skrásetningu samkvæmt nánar sundurliðuðu yfirliti sem birtist í fylgiskjali I með frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: 1. gr. orðist svo: Í stað orðanna „allt að 32.500 kr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: 45.000 kr. fyrir heilt skólaár.

Undir þetta skrifa Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, með fyrirvara, Birkir Jón Jónsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Gestir sem komu fyrir nefndina höfðu nokkuð mismunandi skoðanir um málið en báðir aðilar rökstuddu mál sitt nokkuð vel, sérstaklega þó rektorar háskólanna. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta mál í bili, virðulegi forseti, en mun sjálfsagt fara í andsvör við hv. þingmenn hér á eftir.