Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 22:25:29 (3044)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:25]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Við erum að fjalla um hækkun skráningargjalda við Háskóla Íslands og eins og hæstv. forseti hefur tilkynnt á umræðan einnig við um aðra ríkisháskóla, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Ég vil í upphafi, vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar áðan, hryggja hann með því að afstaða mín hefur ekki breyst. Ég hafði sett það í minnispunkta mína að ég ætlaði að sjálfsögðu í upphafi að gera grein fyrir fyrirvara mínum við þetta mál. Ég skrifa undir nefndarálit frá menntamálanefnd með fyrirvara og er það gert í þeim tilgangi að málið komi inn í þingsal til 2. umr. og hljóti þannig þinglega meðferð.

Ég hef lýst því yfir áður, og er enn þeirrar skoðunar, að ég muni ekki geta stutt þetta mál. Árið 2001 þegar gjaldið var síðast hækkað stóð ég í öðrum sporum. Þá var ég framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þá fjölluðum við um að við teldum skilgreiningu skráningargjalda vera of víða. Við gagnrýndum hækkunina enda var hún lítt rökstudd. Þá lá ekki fyrir listi þar sem skilgreint var hvað gjaldið ætti að dekka.

Stóra baráttumálið hjá stúdentum árið 2001 laut líka að því að hækkunin sjálf væri dregin frá framlagi ríkisins til Háskóla Íslands. Nú hefur orðið veruleg breyting á þessum tveimur liðum, þ.e. hækkunin er rökstudd í töflum frá háskólunum en menn greinir á um liði í þeim töflum. Það er kannski ekki skrýtið þar sem þeir eru matskenndir og við sjáum að þeir eru misjafnir á milli skólanna. Á hinn bóginn dregst hækkunin ekki frá ríkisframlaginu. Hækkunin sem við ræðum hér um mun fara óskipt til skólanna.

Varðandi skráningargjaldið sjálft er ég þeirrar skoðunar að við verðum í framtíðinni að skoða betur hvað það felur í sér. Það kom fram í máli rektora skólanna sem komu fyrir menntamálanefnd að að öllum líkindum mundu þeir hækka gjaldið enn frekar á næstu árum, það nái ekki yfir allan þann kostnað sem þarf að þeirra mati að standa straum af. Ég tel að það sé mikið umhugsunarefni fyrir okkur.

Rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, kom fram með þá hugmynd á fundi menntamálanefndar að þegar stúdentar skráðu sig til náms greiddu þeir staðfestingargjald sem væri þá staðfesting á þeirri þjónustu sem þeir njóta sem nemar við Háskóla Íslands. Þar væri um að ræða þjónustu fyrir utan kennslu enda vitum við að skilgreining á skólagjöldum markast af því að ef tekið er gjald fyrir kennslu þá eru það skólagjöld.

Ég vildi velta þessu upp til umhugsunar vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að heitið skráningargjald sé ekki réttnefni á því gjaldi sem við ræðum hér. Ég tek undir með rektorum ríkisháskólanna varðandi það að í því felist ákveðinn orðaleikur. Ég tek þó skýrt fram að ég tel ekki, og ég hef sagt það áður, að skráningargjöldin séu skólagjöld af þeirri einföldu ástæðu að engir kennsluliðir eru í rökstuðningi háskólanna.

Herra forseti. Varðandi það atriði að skólarnir fái hækkunina óskipta til sín verð ég að segja að ég tel það mikla framför. Þrátt fyrir aukin framlög ríkisvaldsins til háskólanna er ljóst að þeir geta vel notað aukið fjármagn enda held ég að menntakerfið verði aldrei mettað af fjárframlögum.

Mig langar, herra forseti, aðeins að gera grein fyrir heildarumhverfinu á háskólastigi. Þá er rétt að tína til nokkrar staðreyndir. Þar ber helst að nefna tvennt. Í fyrsta lagi fjöldi háskólastúdenta. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands tvöfaldaðist fjöldi háskólastúdenta frá haustinu 1994 til haustsins 2003, úr 7.310 nemendum í 15.466. Ef við förum aftur til ársins 1990 er um tæplega þreföldun nemendafjöldans að ræða fram til haustsins 2003. Á þessu eru margar skýringar en almenna skýringin á þeirri miklu fjölgun eru breyttir atvinnuhættir, almennt aukin áhersla atvinnulífs og einstaklinga á þekkingu og sérhæfingu og stóraukið framboð á námi. Á sama tíma sækja fleiri aldurshópar sér nám af einhverju tagi.

Varðandi fjárframlögin jukust þau til kennslu í þeim skólum á háskólastigi sem heyra undir menntamálaráðuneytið frá árinu 2002–2004 um tæplega 53%. Fjárframlög til rannsókna í háskólum jukust á sama tímabili um 40%. Það er ljóst að hér er um gríðarmerkilega þróun að ræða. Þróunin er hröð og við höfum í þingsölum fagnað henni vegna þess að það er óumdeilt að það er metnaður okkar að menntunarstig þjóðarinnar verði sem hæst. Ég held þó að komið sé að því að mikilvægt sé að við stöldrum við og hugum að stöðu háskólanna í landinu.

Við sjáum öll að ríkisreknir háskólar standa ekki jafnfætis sjálfseignarstofnunum í samkeppni. Ég held að ríkið hafi gert vel undanfarin ár í því að hjálpa sjálfseignarstofnunum af stað. Þær þurftu aðstoð til þess enda standa hinir rótgrónu háskólar mun framar eftir að hafa verið starfræktir í langan tíma. Ég held líka að þær greinar sem sjálfseignarstofnanirnar hafa kennt og samkeppni ríkir í hafi haft gott af því. Ég tel t.d. að Háskóli Íslands hafi haft mjög gott af samkeppni í þeim greinum.

Nú er svo komið að sjálfseignarstofnanirnar eru komnar vel á veg. Starf þeirra er blómlegt og mikil aðsókn að þeim. Nú er tími til kominn að við snúum okkur enn frekar að ríkisreknu háskólunum. Því fagna ég mjög að hæstv. menntamálaráðherra skyldi biðja um úttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands. Ég vona sannarlega að það verði okkur veganesti í vinnunni vegna þess að við höfum átt í erfiðleikum með að þrengja það hvar við tökum á málinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vildi bara gera grein fyrir fyrirvara mínum, að ég mun sitja hjá í þessu máli.