Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 22:36:59 (3048)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:36]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gott er að vita til þess hvað hv. þm. Kristján L. Möller er vel inni í því sem gerist á flokksþingum Framsóknarflokksins. (KLM: Ég er sérfræðingur í Framsóknarflokknum.) Það er reyndar dálítið löng söguskýring á bak við þetta. Ég vil geta þess að þessi tillaga kom fram undir lok flokksþings þegar meiri hluti fundarmanna var farinn heim. Það sem fólst í þessari tillögu var að við ættum ekki að útiloka framhaldsnámið og menn voru sammála um að taka ekki til atkvæða slíkt stórmál í lok flokksþings þegar flestir voru farnir heim og þetta mál hafði ekki verið rætt í menntamálahópi flokksþings Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Hvers konar vinnubrögð eru þetta?) Ja, við vorum nú að koma í veg fyrir gerræðisleg vinnubrögð í lok flokksþings, þ.e. að menn mundu lauma svona tillögum inn enda er eðlilegt að þetta færi í gegnum þann farveg. (KLM: Var þetta vond tillaga?) Ég ætla ekki að tjá mig um hvort þetta hafi verið vond tillaga en ég stóð fyrir því að henni var vísað frá af því að hún hafði ekki fengið þá málsmeðferð (Gripið fram í: Var þetta ...) sem jafnstórar tillögur og þessi eiga að fá.