Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 22:41:45 (3053)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að vega í sama knérunn því mér finnst gæta nokkurs vafa í máli hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur því að minn skilningur á fyrirvörum sem þingmenn hafa tök á að setja við afgreiðslu mála úr þingnefndum er að þeir þurfa að vera efnislegir. Nú bið ég hæstv. forseta að leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér. Er það ekki réttur skilningur minn, hæstv. forseti, að fyrirvarar þingmanna, þegar mál eru afgreidd úr nefndum, þurfi að vera efnislegir og hafa efnislegan rökstuðning? Allt þetta kjörtímabil var það brýnt fyrir okkur þingmönnum í nefndum Alþingis að orða fyrirvara okkar í nefndarálitunum. Þar með var okkur sagt að við gætum ekki skilað nefndaráliti með svo almennum fyrirvörum sem reyndar er farið að tíðka núna og ég held að sé bara vegna tímaskorts. Þegar verið er að rífa mál úr nefndum nánast áður en þau eru tilbúin eða fullburða þá hefur það gerst núna upp á síðkastið, síðustu daga, að mál hafa verið afgreidd út úr nefndunum án þess að þingmenn hafi verið krafðir um það að orða hina efnislegu fyrirvara sína.

Ég sé því ekki annað en að hér sé hv. þm. Dagný Jónsdóttir að heimfæra fyrirvara sinn upp á atriði eða málsmeðferð sem hún getur ekki gert. Ég tel að hv. þingmaður hefði átt að skila séráliti vegna þess að hún getur eðli málsins samkvæmt ekki skrifað undir það sem meiri hlutinn eða stjórnarliðarnir í nefndinni gera, þ.e. að hvatning til þingsins fylgi þessu nefndaráliti um að málið verði samþykkt, ef hún ætlar síðan ekki sjálf að fylgja þeirri sannfæringu sem meiri hlutinn eða stjórnarliðarnir í nefndinni láta fylgja hingað út til þingmanna í þingsal.