Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 22:47:00 (3057)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:47]

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Í tilefni af þessari umræðu er óhjákvæmilegt að fara fram á það að forseti þingsins segi okkur frá því í salnum, annaðhvort núna eða síðar ef honum þykir það henta betur, hvernig þessu er háttað í reglum þingsins og hefðum. Getur þingmaður verið á nefndaráliti með fyrirvara og fyrirvarinn gengur út á að hann taki aðra afstöðu en nefndarálitið gengur út á?

Hér á borðum okkar eru þrír takkar, það er takkinn já, takkinn nei og takkinn greiðir ekki atkvæði sem á mæltu máli þýðir situr hjá. Í því ímyndaða nefndaráliti sem ég er að tala um leggur þessi meiri hluti til, þ.e. fimm eða fleiri þingmenn sem um ræðir, að þingheimur samþykki málið. Er þá mögulegt að einn af þessum þingmönnum skrifi undir nefndarálitið með fyrirvara sem gengur út á það að hann vilji ekki að þingheimur samþykki málið? Er þetta hugsanlegt? Ég óska eftir að forseti segi okkur frá því vegna þess að skilningur minn er sá að þetta sé ekki hægt, að í grunnatriðum sem slík nefndarálit ganga út á sem hér er um að ræða sé ekki hægt að setja fyrirvara. Það sé hins vegar hægt að setja fyrirvara um hjásetu við einstaka liði eða áskilja sér rétt til breytingartillagna eða segja frá því í hverju fyrirvarinn er fólginn en ef maður hefur aðra afstöðu af þessum þremur á tökkunum en um er að ræða í nefndarálitinu geti maður ekki verið með í álitinu.

Hins vegar er það minn skilningur, og ég bið um að hann sé leiðréttur ef hann er rangur, að hægt sé jafnvel þó að maður sé á móti máli að hjálpa því út úr nefnd, að afgreiða málið út úr nefnd, og maður sem er á móti máli getur viljað afgreiða það út úr nefnd til þess t.d. að sú andstaða komi fram eða að hann treystir sér til að vinna sínum málstað meiri hluta í þingheimi þó að hann sé í minni hluta í nefndinni. Það er því ekkert óeðlilegt við það að taka þá afstöðu að afgreiða mál út úr nefnd þó að maður sé ekki sammála þeim meiri hluta sem myndast hefur um það í nefndinni. Það er allt annað mál og óskylt, forseti, samkvæmt mínum skilningi, því að vera með á nefndarálitinu. Ég óska eftir að úr þessu sé skorið helst strax en síðar ef betri ástæður þykja til að gera það síðar og mun ganga eftir því ef það er ekki gert nú.