Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 23:17:25 (3062)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[23:17]

Steinunn K. Pétursdóttir (Fl):

Frú forseti. Hv. þingmenn Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir hafa í ræðum sínum gert ágætlega grein fyrir afstöðu minnihluta menntamálanefndar og þar með talið minni, en ég vil þó nota tækifærið til að minnast á eitt og annað.

Skrásetningargjöld við ríkisháskólana eiga að hækka um tæplega 40% á einu bretti sem hlýtur að teljast umtalsvert og þá sér í lagi í buddum fátækra námsmanna. Margir hafa hingað til þurft að þreyja þorrann með því að neita sér um næstum því allt nema þurrt brauð og vatn og sýnt þykir að hagur þeirra verði ekki vænlegri ef frumvörpin verða að lögum óbreytt. Ég ætla ekki að mæla gegn því að stúdentar greiði að einhverju leyti fyrir þá þjónustu sem þeir ganga að vísri við nám í ríkisháskólunum, en hins vegar þykir mér sú upphæð sem er lögð fram í hærri kantinum og einnig þykja mér röksemdafærslur talsmanna skólanna þriggja og sundurliðun þeirra á því sem þeir kalla kostnað vegna skráningar og þjónustu við stúdenta allrar gagnrýni verð.

Skólarnir þrír leggja hver um sig fram sundurliðun á kostnaðinum sem fylgiskjöl með frumvörpunum og við yfirlestur þeirrar sundurliðunar flaug mér í hug af einhverjum furðulegum ástæðum mynd af frakkaklæddum mönnum að laumast í skjóli nætur í Öskjuhlíðinni eða einhverjum álíka huggulegum stað. Niðurstöðutalan ber a.m.k. svolítinn keim, svo ekki sé meira sagt, af gúrku- og bensínverðlagningu.

Kannski er það hins vegar svo, nú þekki ég það ekki, að kostnaður við skráningu og tengda þjónustu sé nánast sá sami við hvern þessara þriggja skóla um sig, en mér þykir þrátt fyrir það merkilegt að ekki skuli vera kostnaðarminna að skrá sig til náms í fjölmennari skóla en fámennari þar sem hagræðingin ætti að vera meiri í stærri skólanum.

Ég get ekki annað en undrað mig á vinnubrögðunum við undirbúning frumvarpanna eins og hann lítur út fyrir mér. Hækkunin er lögð til að ósk skólanna og upphæðin sem næst með þessu úr vösum nemendanna á að renna óskipt til þeirra þó reyndar séu uppi deilur um það hversu stór upphæðin eigi að vera sem þeir fá óskipta.

Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, eins og hv. þm. Mörður Árnason rakti í ræðu sinni, að útgjaldaheimild skólanna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólarnir nýti sér heimildina og afli þannig meiri tekna sem því nemur og renni óskertar til þeirra. Starfsmaður menntamálaráðherra staðfesti þetta á fundi hv. menntamálanefndar að hækkun gjaldsins væri ein af forsendum fjárveitingatillagna í fjárlagafrumvarpinu.

Við höfum margoft heyrt um og einnig rætt þann fjárhagsvanda sem skólarnir glíma við. Tugi og jafnvel hundruð millj. kr. vantar upp á að endar nái saman í rekstri þeirra og hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það geti hugsanlega verið, án þess að ég ætli stjórnendum skólanna slíka hegðun, að þeir hafi verið komnir á hnén grátbiðjandi um meira fé frá ríkinu og að ráðherra hafi fundið töfralausn á þeim vanda: Látum lýðinn bara borga. Hækkið þið skrásetningargjöldin. Þannig náið þið að öngla saman einhverju upp í halann sem þið dragið á eftir ykkur.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir þessum tekjum skólanna. Því var þeim ekki úthlutað meiru en raun bar vitni á fjárlögum, afganginn skyldu þeir sækja í vasa nemenda. Stjórnendum var fengið það verkefni að útbúa sundurliðun á kostnaði svo hægt væri að réttlæta hækkun og æskilegast væri fyrir ráðuneytið að niðurstaða þeirrar kostnaðargreiningar væri u.þ.b. 45 þús. kr. á stúdent í öllum skólunum. Það er svo rannsóknarvirði út af fyrir sig hvernig t.d. Háskóli Íslands kemst að þeirri niðurstöðu að stúdentar sem skrá sig þar til náms þurfi að greiða 20% af rekstri deildarskrifstofa eins og það er orðað í fylgiskjali með frumvarpi um þann skóla og að sama skapi 30% af rekstri skrifstofu kennslusviðs. Það gæti verið afskaplega fróðlegt að komast yfir útreikningana sem liggja að baki tölunum.

Verst er kannski í málinu, frú forseti, sú staðreynd að hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fæst ekki lán fyrir skrásetningargjöldum og setur hækkunin því stórt strik í reikning þeirra fjölmörgu stúdenta sem þurfa að framfleyta sér með lánum þaðan á námstímanum. Réttara væri að hér væri bara töluð íslenska eins og hún kemur fyrir og hlutirnir nefndir því nafni sem þeir með réttu nefnast. Ef eitthvað er væri námsmönnum greiði gerður með því, eins og hlutirnir líta út í dag, að skrásetningargjöldin væru nefnd skólagjöld þar sem lánað er fyrir þeirri tegund útgjalda en ekki hinni fyrrnefndu.

Kannski er það ætlun hæstv. menntamálaráðherra eftir allt saman að námsmenn fari fram á og óski eftir því að fá að greiða skólagjöld frekar en skrásetningargjöld. Þá væri töluvert kátt í Valhöllinni er ég hrædd um og þeim fyndist það þar örugglega ekki tiltökumál að verða við þeim óskum stúdenta ef þær kæmu fram, ef ég þekki sjálfstæðismennina rétt.

Ég er ósköp hrædd um að hér sé menntamálaráðuneytið að lauma sér bakdyramegin að stúdentum og að þetta sé fyrsta skrefið af fáum á þeirri göngu sem virðist vera hafin í þá átt að innheimta skólagjöld við ríkisháskólana, skólana sem eiga að vera öllum aðgengilegir óháð efnahag. Á það hefur Frjálslyndi flokkurinn lagt áherslu að efnahagslegar aðstæður einstaklinga fái ekki um það ráðið hvort þeir geti sest á skólabekk og aflað sér framhaldsmenntunar. Því erum við, svo ekki sé meira sagt, afar ósátt við frumvörpin eins og þau hafa verið borin fram.