131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:35]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hv. þingmaður mótmæli þessum gjöldum. Hv. þingmaður og sá flokkur sem hún tilheyrir er á móti hvers kyns gjaldtöku og er þeirrar skoðunar að öll þjónusta opinberra aðila eigi að vera innt af hendi endurgjaldslaust fyrir notendur þjónustunnar, (Gripið fram í.) það eigi bara allt að vera frítt, (KolH: Nei, greitt í gegnum skattkerfið.) en skattgreiðendur eigi að standa á bak við þann kostnað sem af hlýst. Ég virði hv. þingmann alveg fyrir þessa skoðun hennar.

En við skulum gera okkur grein fyrir því að ef hennar hugmyndafræði yrði ofan á þá yrði tekjuskattshlutfallið á Íslandi um 70–80%, eða mjög hátt. Menn mundu greiða nánast allar sínar tekjur til samneyslunnar en um það er grundvallarágreiningur milli mín og hv. þingmanns. Ég vil lága skatta (Gripið fram í.) en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Vinstri grænir vilja háa skatta. Ég ber hag launþega og skattgreiðenda fyrir brjósti en það gerir hv. þingmaður og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þar með hv. þm. Jón Bjarnason, ekki. Og hafðu það, hv. þingmaður.

En úr því að vikið var að þeim kostnaðarliðum sem fram komu í frumvarpinu frá árinu 1995 sýnist mér að þeir kostnaðarliðir sem þá voru tilgreindir séu nokkurn veginn hinir sömu og hér eru tilgreindir. Reyndar hafa bæst við ákveðnir kostnaðarliðir eins og rekstur tölvuvera, aðgangur að tölvupósti og interneti og fleira. (Gripið fram í.) Þetta er þjónustugjald og skiptir ekki máli hvaða nafni það er nefnt. Þetta er þjónustugjald vegna kostnaðar (Forseti hringir.) við að veita tiltekna þjónustu sem tiltekin er í frumvarpinu.