131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:37]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom á einum stað í sinni löngu og vel æfðu ræðu inn á kjarna málsins. Hann sagði, virðulegi forseti, að engin ákvörðun hefði verið tekin um það af stjórnvöldum að taka upp skólagjöld og þar með væru þau skólagjöld sem nú væru innleidd og hækkuð við ríkisháskólana ekki lánshæf. Hann staðfesti að stjórnvöld væru að innleiða skólagjald á grunnnám á háskólastiginu.

Annars vegar er tækninámið á vegum ríkisins lagt niður og sett inn í einkaskóla og innheimt verulegt gjald fyrir aðgang að því. Ekki verður hægt að stunda tækninám eftir þá breytingu nema gegn háum skólagjöldum í einkaskóla. Síðan eru innheimt skólagjöld í ríkisháskólana þrjá sem eftir standa. Þau eru hækkuð um 40%. Skref er stigið frá því að innheimta það sem mætti með góðum vilja flokkast sem staðfestingargjald, hófstillt þjónustugjald, yfir í skólagjöld. Þau eru ekki sérstaklega há en eru án nokkurs vafa skólagjöld.

Sú úrelta skilgreining sem menn hanga hér á, um að skólagjöld taki aðeins til kennslu er firra. Skólagjöld eru einfaldlega það sem stendur undir hvers konar rekstri við skólana. Allt hitt eru hártoganir sem skipta engu máli, þannig að því sé haldið til haga. Þingmaðurinn getur því ekki hangið í þeirri skilgreiningu.

Ég vildi þess vegna spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki eðlilegra að Sjálfstæðisflokkurinn horfist í augu við það sem hann er að gera, viðurkenni að hann er að innleiða skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi, annaðhvort með því að einkavæða námið eða með því að gera það undir undir röngum formerkjum, og þar með gætu nemendur sótt um lán fyrir skólagjöldunum? Væri það ekki eðlilegri og heiðarlegri leið?