131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:44]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, ég tel að það eigi að vera ákvörðun stjórnenda skólanna að ákveða hvort þeir vilji taka skólagjöld miklu frekar en okkar stjórnmálamannanna sem hér sitjum og þekkjum rekstrarforsendur skólanna ekki nándar nærri eins vel og stjórnendur skólanna. En ég verð að segja að það kemur mér verulega á óvart hvað hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson leggur mikið upp úr því að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin séu, með þeim gjöldum sem við fjöllum um hér, að innheimta skólagjöld og krefst þess að þau gjöld séu kölluð sínu rétta nafni, sem hann telur að séu skólagjöld.

Hv. þingmaður má kalla þessi gjöld þeim nöfnum sem honum sýnist. Ef þetta eru skólagjöld af hverju kemur hann þá ekki upp í pontu og fagnar því að verið sé að taka skólagjöld á háskólastigi, þar á meðal í ríkisháskólunum? Maður skyldi ætla að hann gerði það, a.m.k. ef hann er sammála þeim hugmyndum sem fram koma í viðtalinu við varaformann Samfylkingarinnar, sem er augljóslega hlynnt skólagjöldum og vill beinlínis taka þau upp og er jafnvel tilbúin til að leggja af leikskólagjöld en fjármagna kostnaðinn með töku gjalda í háskólunum.

Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður er svona önugur út af skólagjöldunum þegar það liggur líka fyrir að fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafa beinlínis lagt til í framtíðarhópi Samfylkingarinnar að slík gjöld yrðu tekin upp. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður sé stuðningsmaður varaformanns Samfylkingarinnar og annarra þingmanna flokksins og ætti þá bara að fagna því ef upptaka skólagjalda kemur til framkvæmda.