Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:23:18 (3091)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:23]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. bregður sér ýmist í gervi skógarhöggsmannsins eða bakarans og hann talar um hina stóru köku sem hann hafi verið að búa til. Hvar er kakan sem þau 29 þús. hafa fengið sem fyrir nokkrum árum greiddu engan skatt af þeim 100 þús. kr. launum sem þau hafa með ýmsu móti frá ríki eða með öðrum hætti? Þetta fólk greiddi engan skatt þegar við fórum úr ríkisstjórn, nokkur, 1995. Í dag er þessi ríkisstjórn búin að baka köku handa þessu fólki sem felur það í sér að 2 milljarðar eru teknir á hverju ári í beina skatta af þessu fólki. Þetta er kakan sem hv. bakarameistari býr til handa fátæka fólkinu í þessu landi.

Hv. þingmaður talar um að það hafi bara verið ein skattahækkun. Virðulegi forseti. Má ég til upprifjunar benda honum á að búið er að hækka skólagjöld á Akureyri, KHÍ og HÍ samtals um 150 millj. Það er búið að setja aukið gjald á Framkvæmdasjóð aldraðra um 47 millj. Það er búið að samþykkja aukatekjur ríkissjóðs um hækkun upp á 200 millj., umsýslugjald fasteigna 280 millj., áfengisgjald 340 millj., bifreiðagjald 120 millj., vaxtabætur 900 millj., olíugjald 350 millj., viðbótarlífeyrissparnaður — þar sem ívilnunin var tekin — 600 millj., sjúkratryggingar 750 millj., komugjöld á heilsugæslustöðvar 100 millj., vörugjald af bensíni 600 millj., þungaskattur 400 millj. og síðan breytingar á barnabótum til frádráttar 150 millj., samtals á tveimur árum rúmir 8 milljarðar en ríkisstjórnin áformar að skila á þessum tveimur árum tæpum 7,7 milljörðum kr.

Þegar upp er staðið hefur ríkissjóður aukið skattheimtu sína á þessum tveimur árum. Þetta eru sjónhverfingarnar, þetta eru blekkingarnar. Svona er verið að nota þetta til að blekkja kjósendur.