Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:04:53 (3102)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Niðurlútur gengur hv. þingmaður um skógarsvörðinn og sér enn fölnuð laufblöð. Eins og lastarinn. Hann nefnir umsýslanir fasteigna. Það var rætt í gær og ég benti á að umsýslugjald fasteigna á 18 millj. kr. eign verður 150 kr. á mánuði. Þetta er aðalhaldreipi hv. þingmanns gegn þessum stórkostlegu skattalækkunum sem við erum að fara fram með.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann á móti þeirri þjóðfélagsbreytingu að fella niður eignarskatt sem er skattur á sparnað og ráðdeild? Er hann á móti því að lækka tekjuskatt þannig að fólk hafi hvata til að vinna meira og afla sér menntunar? Er hann á móti því? Er hann á móti því að hækka barnabætur? Um það fjallar þetta frumvarp, engin fölnuð laufblöð hingað og þangað í skógarsverðinum sem niðurlútur hv. þingmaður sér og notar orðalag eins og að hæstv. fjármálaráðherra hafi vælt eins og grís. Þau orð eru aðalrökin í málinu.