Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:14:26 (3110)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:14]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, fyrsti talsmaður þessa máls og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, kjaramálum og tryggingamálum, sagði að dagurinn í dag væri mikill hamingjudagur. Hann sagði að þetta frumvarp væri að vísu ekki að skapi þeirra sem legðu mest upp úr kjarajöfnun en fyrir hina sem teldu skattalækkanir skipta öllu máli væri komið sumar og sól í heiði. Nú fór þingmaðurinn að sjá laufguð tré og iðjagrænan skóg. Einhvern tíma var þetta kölluð veruleikafirring. Ég held að tími sé kominn til að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í kjaramálum, líti út um gluggann, litist um í íslensku þjóðfélagi og spyrji hvað þar sé að gerast.

Sú aukna misskipting sem hér er að verða blasir hvarvetna við, annars vegar í lífskjörum þeirra sem raka til sín milljónatugum, jafnvel milljörðum króna, og svo hinna hins vegar sem varla geta séð sér og sínum farborða. Þetta er staðreyndin á Íslandi í dag og ég held að það sé afskaplega misráðið að einblína á aðeins aðra hlið þessara mála, einblína á skattana og þær auknu ráðstöfunartekjur sem skattalækkanir gefa.

Við þurfum einnig að skoða útgjöldin og spyrja: Hvernig vegnar þeim í íslensku þjóðfélagi sem minnstar tekjurnar hafa? Hvernig vegnar þeim nú og hvernig vegnaði þeim áður fyrr? Ég er sannfærður um að það er erfiðara að vera fátækur á Íslandi í dag en það var fyrir 20 árum. Það er erfiðara að vera sjúkur og tekjulítill í dag en það var fyrir 20 árum. Það er erfiðara að afla húsnæðis ef maður ert tekjulítill í dag en það var fyrir 20 árum.

Við skulum ekki gleyma því sem breyst hefur í samfélagi okkar á undanförnum áratugum þegar félagslegt húsnæðiskerfi var nánast rústað undir lok aldarinnar. Hvaða afleiðingar hafði það? Við einblínum núna á það sem er að gerast í húsnæðislánakerfinu. Þar er margt gott og gleðilegt að gerast, að sönnu, en hafa menn hugleitt hitt að þeim fjölgar í samfélaginu sem ekki hafa efni á því að kaupa húsnæði yfirleitt og þurfa að leita út á rándýran húsaleigumarkaðinn? Hafa menn hugleitt að það er að fjölga í þessum hópum?

Nú er það svo að kjör þeirra sem sitja í þessum sal hafa batnað talsvert á undanförnum árum. Menn búa hér við allsæmileg og ég mundi segja góð kjör. En eru menn að missa jarðsambandið? Eru menn að missa tengslin við það sem er að gerast úti í samfélaginu? Hér hneyksluðust margir á kjarakröfum kennara og töldu þær vera óábyrgar. Var þetta ekki fólk sem ekki skilur lengur hvernig það er að hafa litlar tekjur og geta ekki framfleytt sér og sínum?

Það er staðreynd að í þjóðfélagi okkar eru stórir hópar fólks sem hafa allt of litlar tekjur, sem hafa í mánaðartekjur á bilinu 100–200 þús. kr. Þegar við skoðum ráðstafanir í skatta- og kjaramálum þurfum við að horfa til þessa fólks. Við verðum að skoða hið stóra samhengi. Hér kom ágætur þingmaður áðan og sagði að ráðstöfunartekjur lágtekju- og millitekjufólks með börn mundu aukast fyrir tilstilli þeirra skattkerfisbreytinga sem hér eru boðaðar. Ef við höldum áfram á þessari leið og höldum áfram að færa fólki kjarabætur með skattalækkunum, hvað gerist þá? Eru menn búnir að gleyma því að ástæðan fyrir því að sveitarfélögin voru treg til að koma til móts við kjarakröfur kennara var sú að sveitarfélögin töldu sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að greiða þeim laun sem skyldi? Hvað gerist ef við höldum áfram á þeirri braut að skerða enn tekjur ríkis og sveitarfélaga, þeirra sem fjármagna velferðarþjónustuna og greiða fólkinu laun? Sjá menn ekki samhengið hér á milli? Þetta er hið stóra samhengi sem aldrei má missa sjónar af.

Samkvæmt þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar munu tekjur ríkissjóðs rýrna um 25–30 milljarða á ári þegar skattkerfisbreytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Ríkisstjórnin telur að þessi upphæð sé lægri og til eru þeir sem segja að hún sé miklum mun lægri. (PHB: Kakan stækkar.) Kakan stækkar, kallar formaður efnahags- og trygginganefndar fram í. (Gripið fram í.) Hugmyndin er þá sú að vegna skattalækkana muni neysla í samfélaginu aukast, það verði veltuáhrif sem kallað er, aukin veltuáhrif, og fyrir bragðið muni tekjur ríkissjóðs af skattheimtu aukast. Þetta er sú hugsun sem menn byggja á en ég vísa í hagdeildir heildarsamtaka launafólks sem telja þetta vera bábilju og vísa þar í reynsluna. Þessi heildarsamtök, bæði ASÍ og BSRB, telja að tekjutap ríkisins verði á bilinu 25–30 milljarðar kr. á ársgrundvelli þegar þessar skattkerfisbreytingar verða komnar til framkvæmda.

Skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar gengur algerlega í berhögg við áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. VG er málsvari öflugrar samfélagsþjónustu og vill að hún sé fjármögnuð með sköttum en ekki notendagjöldum, hvort sem það eru skólagjöld, álögur á sjúklinga eða aðra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. VG vill hins vegar endurskoða skattkerfið, gera það réttlátara og markvissara. Hefur þingflokkurinn flutt frumvörp í þessu skyni. Ég vil nefna tvö.

Í fyrsta lagi höfum við flutt frumvörp um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 18%. Þetta mundi auka skatttekjur ríkissjóðs um a.m.k. 3 milljarða á ári, færa fjármagnstekjuskattinn upp í um 10 milljarða. (PHB: Stofninn minnkar.) Stofninn minnkar, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal sem telur að fjármagnseigendur og fjáraflamenn í þessu þjóðfélagi geti aldrei hugsað á samfélagslega vísu, þeir hljóti að flýja land, reyna að koma eignum sínum undan til skattaparadísa í útlandinu eða svíkja undan skatti á einhvern hátt, finna holur og göt í kerfinu, að þessi hópur geti aldrei hugsað á ábyrgan hátt sem íslenskir þjóðfélagsþegnar. Það er mikil falleinkunn sem hann gefur þessum hluta samfélagsins. Hugsanlega er þetta rétt hjá honum en ég hef hins vegar ekki trú á að niðurstaðan yrði sú að skattstofninn mundi minnka, og ég spyr: Hvert ættu þessir aðilar að fara? Ég vísa mönnum á að lesa greinargerð með frumvarpi okkar um breytingar á fjármagnstekjuskatti því þar rekjum við nákvæmlega hvernig fjármagnstekjuskatti er fyrir komið í löndunum sem við iðulega berum okkur saman við. Þá vísa ég til Bandaríkjanna, Kanada, Norðurlanda, meginlands Evrópu og víðar.

Þetta er að sjálfsögðu líka réttlætismál vegna þess að þeim fjölgar sem hafa miklar tekjur af fjármagni. Það er eðlilegt að þeir greiði skatt af arði sínum, af ávinningi sínum af þessu fjármagni á sambærilegum kjörum og fók sem aflar tekna með launavinnu. Í rauninni væri réttlætismál að þeir greiddu meira, en látum það vera. Tillaga okkar gengur út á það að jafna þessi kjör. Það má ætla að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar hafa tekjur á Íslandi. Það er þetta sem er að gerast, stóreignafólkið og hátekjufólkið, fjármagnseigendurnir, hafa tekjur sínar fyrst og síðast af fjármagni. Þetta er áhersla sem við höfum hamrað á í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og við höfum bent á til hvers við vildum nota þessa peninga.

Við höfum lagt fram tillögur um gjaldfrían leikskóla. Halda menn að slíkt yrði ekki kjarabót fyrir barnafólkið sem … (PHB: En hækkunin hjá Reykjavíkurborg?) Í Reykjavíkurborg hafa verið stigin skref til að gera leikskólann gjaldfrían. Það er staðreynd. (Gripið fram í: … var verið að hækka.) (Gripið fram í: … 2%, er það ekki?) Já, við erum með tillögur um að ríkið komi til aðstoðar sveitarfélögum til að stíga þessi skref. Ef menn telja sig geta hankað mig eða okkur á því að einhvers staðar sé verið að gera hluti sem ganga í öfuga átt, þó að það séu flokksfélagar okkar eða samherjar í pólitík, er sú för ekki farin til fjár vegna þess að við erum að tala um almenna stefnumótun sem við viljum styrkja og stuðla að, hvort sem það er í Reykjavíkurborg eða annars staðar. Við erum með tillögur um hvernig eigi að gera þetta, krefjumst ekki bara úrbótanna heldur erum við með tillögur líka um hvernig eigi að fjármagna þær samfélagsbætur sem við berjumst fyrir. Við lögðum líka fram tillögu um leiðir til að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna sem standa víða í landinu mjög illa, búa við mjög slæma fjárhagsstöðu. Við vildum nota þetta tilefni sem ríkisstjórnin gefur með lækkun tekjuskattsins til þess að færa heimildir til sveitarfélaga til hækkunar útsvars þannig að þar jafnaðist út lækkun tekjuskatts og hækkun útsvars til að styrkja og treysta tekjustofna sveitarfélaganna. Við komum með tillögu þar að lútandi sem hefur verið rædd í þinginu og liggur í nefnd.

Það sem ég er að leggja áherslu á í upphafi míns máls er sú staðreynd að stefna í skattamálum er jafnframt stefna í stjórnmálum. Á undanförnum missirum hefur verið tekist hart á um það í samfélaginu hvernig eigi að fjármagna velferðarþjónustuna. Við munum eftir þeim átökum sem urðu um aðhaldsaðgerðir — sem stundum er kallað svo á fínu máli — sem Landspítali – háskólasjúkrahús var beittur. Þar myndaðist breið samstaka innan hreyfinga launafólks. Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM, Öryrkjabandalag Íslands og ýmis samtök sjúklinga tóku höndum saman um að mótmæla aðhalds- og niðurskurðaráformum á Landspítala – háskólasjúkarhúsi vegna þess að þá hafði komið í ljós hvað raunverulega vakti fyrir stjórnvöldum, það var að svelta þessa stofnun og aðrar ámóta stofnanir til að einkavæða hluta starfseminnar. Og það er að gerast.

Hver er afleiðing slíkrar stefnu? Afleiðingin er sú að þegar starfsemin er komin út á markað verður fjármögnun hennar í ríkari mæli en áður var með notendagjöldum. Hvað þýðir það? Það þýðir að hinir efnameiri, þeir sem hafa meira handa á milli, eiga að sjálfsögðu auðveldara með að nálgast þessa þjónustu sem þeir kaupa á markaði en hinir sem hafa minni efni. Hinir efnameiri eiga auðveldara með að kaupa menntun fyrir börn sín og aðhlynningu ef þeir eru sjúkir eða þurfa á slíku að halda. Við erum að færa íslenskt þjóðfélag að þessu leyti í átt frá Norðurlöndum og Evrópu yfir til Bandaríkjanna, til þess sem tíðkast þar, þar sem samfélagsþjónustan er að verulegu leyti markaðsvædd. Það er að vísu til öryggisnet og þjónusta í heilbrigðisþjónustu en hún er lakari fyrir þá efnaminni og efnaminnstu. Viljum við þetta? Nei. Ég held að hér rími vel saman áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og viðhorfa í samfélaginu almennt.

Fyrir fáeinum árum var gerð könnun á vegum BSRB. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist hana og þar var spurt hvernig Íslendingar vildu fjármagna velferðarþjónustuna, með notendagjöldum, sjúklingasköttum og skólagjöldum eða í gegnum skatta. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi fara skattaleiðina, vildi borga til heilbrigðisþjónustunnar meðan fólkið var heilbrigt og vinnufært, vildi ekki bíða eftir því að það yrði veikt og sjúkt og þá látið borga. Menn sáu nefnilega samhengið á milli almennrar skattheimtu og velferðar og jöfnuðar í samfélaginu. Það sem var athyglisvert við þessa könnun var að sambærileg könnun sem gerð hafði verið fáeinum árum áður, um áratug áður, hafði sýnt talsverðan vilja til að fara notendagjaldaleiðina. Eftir því sem reynslan af notendagjöldum fór vaxandi minnkaði áhuginn á slíku. Það er að gerast í samfélaginu núna að efnalítið eða fátækt fólk á Íslandi veigrar sér við að kaupa lyf og veigrar sér við að leita til læknis vegna þess að það hefur ekki fjárráð til þess. Viljum við halda áfram út á þessa braut? Við erum smám saman að feta okkur í þessa átt.

Við vorum að ræða í gær og í nótt um skólagjöld. Hér er verið að innleiða skólagjöld á háskólastigi. Ætla menn neðar? Ætla menn í skólakerfið almennt með skólagjöld? Ég spyr ekki að tilefnislausu heldur vegna þess að það sem er að gerast núna í samfélaginu hefði verið óhugsandi fyrir 20–30 árum. Það hefði verið óhugsandi fyrir 20–30 árum að rukka veikt fólk í þeim mæli sem gert er inni á sjúkrastofnunum núna. En núna er sú hugsun að ryðja sér til rúms að kjarabæturnar eigi að liggja í skattalækkunum vegna þess að þær gefi okkur auknar ráðstöfunartekjur en síðan eigi að rukka þegar komið er með börnin í skólana, námsmennina í háskólana og sjúklingana inn á spítalana. Þá á að rukka. Þess vegna spyr ég: Hvernig kemur þetta út fyrir hina efnaminnstu, þá sem eiga við sjúkdóma að stríða? Þannig eigum við að spyrja.

Við eigum einnig að spyrja um hitt: Hvernig er skiptingin á milli hinna tekjuhæstu og hinna tekjulægstu? Hverjir hagnast mest? Hvernig skyldi milljón króna manninum reiða af, manninum sem hefur milljón kr. á mánuði í tekjur? Hvernig skyldi honum reiða af í skattumhverfi hv. þm. Péturs H. Blöndals og hæstv. ráðherra Geirs H. Haardes? Þegar upp verður staðið 2007 mun hann hafa hagnast um 1 millj. á ári af skattkerfisbreytingunum. En hvað með aðra? Aukning ráðstöfunartekna þessa aðila er um 12,4%. Hvernig er með þá sem hafa allra minnstu tekjurnar? Skyldi ávinningurinn þar vera milljón? Nei, hann er nánast enginn nema — og ég ætla ekki að taka það af ríkisstjórninni — að aukning í barnabótum fyrir barnafólkið er að sjálfsögðu veruleg bót. En ríkisstjórnin er umhverfisvæn í þeim skilningi að hún endurvinnur góð mál og ég veit ekki hvað Framsóknarflokkurinn er búinn að endurvinna barnabótatrikkið oft. Hann hefur gengið til kosninga núna a.m.k. í tvígang með loforðum um bætur á því sviði.

Barnabætur núna eru í heild sinni um 5,4 milljarðar. Hvað skyldu þær hafa verið um miðjan síðasta áratug? Þær voru 6,5 milljarðar, milljarði hærri en þær eru nú, og þær voru enn hærri ef við förum lengra aftur, til ársins 1991, þá voru þær enn hærri. Þó að ég að sjálfsögðu fagni þeim umbótum sem verið er að gera á þessu sviði er hér fyrst og fremst verið að snúa ofan af öfugþróun sem átt hefur sér stað á síðasta hálfum öðrum áratug. Það er verið að snúa ofan af öfugþróun og áður en ég skil alveg við Framsóknarflokkinn, barnakortin, umbæturnar og loforðin til barnafólksins vil ég minnast einna kosninga um svokölluð barnakort, um ótekjutengdar barnabætur, og svo loksins komu þau til barna upp að 7 ára aldri. Það sem gleymdist að segja er að áður en Framsóknarflokkurinn komst til valda voru þessar bætur til allra barna upp að 16 ára aldri. Hér er geysilega umhverfisvænn stjórnmálaflokkur á ferðinni sem endurvinnur öll sín kosningaloforð og fyrirheit.

Það sem ég var að leggja út af hér er sú fullyrðing að stefna í skattamálum sé jafnframt stefna í stjórnmálum. Hér er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skýr og við teljum okkur vera sjálfum okkur samkvæm að því leyti að við styðjum í verki almenna skattheimtu til fjármögnunar velferðarkerfis landsmanna. Við erum hins vegar með hugmyndir um breyttar áherslur í skattkerfinu og ég tók dæmi um tillögur okkar um fjármagnstekjuskatt hvað það snertir.

Skattalækkanir eiga samkvæmt frumvarpinu að koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005–2007. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tekjuskattshlutfallið verði lækkað um 4% og að í öðru lagi verði eignarskattur á einstaklinga og lögaðila afnuminn. Viðmiðunarfjárhæðir laganna verða hækkaðar, barnabætur að sama skapi en dregið verður úr stuðningi við húsnæðiskaupendur.

Ríkisstjórnin er söm við sig að því leyti að það sem hún telur ganga í augu skattgreiðenda og barnafólks kemur ekki til framkvæmda fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Þannig verður tekjuskattshlutfallið lækkað um 1% fyrstu tvö árin en um 2% kosningaárið 2007. Breytingar á barnabótakerfinu koma til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Eignarskattarnir verða felldir niður frá og með árinu 2005 en koma ekki fram fyrr en með álagningu skatta árið 2006. Nú eru alþingiskosningar á árinu 2007 og það er greinilegt að tillögusmiðum frumvarpsins eru þær kosningar mjög ofarlega í huga. Þá verður hækkun barnabótanna nýtilkomin og niðurskurðaráhrifa skattalækkana ekki farið að gæta að fullu. Hins vegar verður hafist handa um skerðingu vaxtabótanna þegar í stað. Það sem er slæmt er að það er byrjað á því og síðan kemur rúsínan, konfektið undir lokin en þó þannig að neikvæðra áhrifa verður ekki farið að gæta og allt í fínu lagi í auglýsingunum öllum fyrir kosningar þegar Framsóknarflokkurinn fer í smink og fær nýja kosningastofu, kannski þá gömlu. Hún fékk verðlaun fyrir að vinna það ótrúlega afrek að gera Framsóknarflokkinn að nýjum saklausum flokki sem væri að koma fram með ýmis nýmæli og hugmyndir í húsnæðismálum á ýmsum sviðum þar sem flokkurinn hafði farið með völdin í heilt kjörtímabil. Þetta þóttu slík tíðindi að auglýsingastofunni voru veitt sérstök verðlaun fyrir þetta.

Aðeins nokkur orð um viðbrögð umsagnaraðila um áhrif skattkerfisbreytinganna. Þau skiptust mjög í tvö horn. Annars vegar eru það Samtök atvinnurekenda sem eru yfir sig hrifin og Verslunarráðið hælir ríkisstjórninni á hvert reipi, stórkostlegar tillögur. Þetta er á annan vænginn. Á hinn vænginn eru síðan almannasamtökin í landinu, verkalýðshreyfingin, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands eru með þung orð og gagnrýni. Hið sama gildir um Samband íslenskra sveitarfélaga. Þaðan koma einnig varnaðarorð og miklir fyrirvarar við þetta frumvarp. Síðan eru það greiningardeildir bankanna og Seðlabanka Íslands sem vara við þensluvaldandi áhrifum frumvarpsins og minna á að með minni tekjum ríkissjóðs verði að beita aðhaldi í ríkisrekstri og/eða hækkun vaxta.

Það sem vekur athygli mína í viðbrögðum og yfirlýsingum þessara aðila er hve alhæfingagjarnir þeir eru. Þeir tala alhæfingatungu og greina ekki á milli einstakra útgjaldaliða, hvort beita eigi niðurskurði á sjúkrahúsum, í skólum eða í framkvæmdum, heldur tala þeir jafnan um nauðsyn þess að skera niður, beita ríkið og samfélagið aðhaldi. Það er enginn greinarmunur gerður á þessu og mér finnst það óábyrgt. Það er sérstaklega óábyrgt í ljósi þess hverjir halda hér um stjórnvölinn vegna þess að þeim er ekki treystandi með skilaboð af þessu tagi. Við þekkjum dæmin af Landspítala – háskólasjúkrahúsi og sjúkrahúsunum reyndar almennt í landinu. Þessir aðilar eru yfirleitt ekki með sundurgreiningu á þensluvaldandi þáttum. Hvað er það sem veldur þenslu? Er það aukinn kaupmáttur almennings í samfélaginu? Er það hugsanlega aukin lánsfjárþörf opinberra aðila, veldur hún því að fjármagn verði dýrara? Eru það áhrif á vinnumarkaði? Eru það áhrif þá á tilteknum sviðum á vinnumarkaði, í tilteknum geirum? Þetta er yfirleitt ekki sundurgreint og ég held að það sé ein ástæðan fyrir því hvernig er að fara hér af völdum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, að greiningaraðilarnir hafa ekki axlað þessa ábyrgð. Það er enn hrollur í mér eftir að fulltrúar Seðlabankans og fleiri aðila komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og voru spurðir um áhrifin af Kárahnjúkavirkjun þegar hún var til umræðu í þeirri nefnd. (Gripið fram í: Bara hræddur?) Þeir töluðu þá, fulltrúar Seðlabankans, þessari sömu alhæfingatungu og ég man að það var spurt: Eruð þið einvörðungu að tala um áhrifin án tillits til þess hverju þessi aðgerð skilar inn í þjóðarbúið? Já. Við gætum þess vegna verið að tala um píramída á Sprengisandi. Þannig var umræðan.

Nú erum við hins vegar að súpa seyðið af því að þessi áhrif voru aldrei sundurgreind. Menn fóru aldrei í þá umræðu að spyrja: Hver er virðisaukinn fyrir íslenskt samfélag? Það voru til undantekningar, það voru til hagfræðingar sem töluðu um það að sönnu og voru með miklar efasemdir, og meira en efasemdir, um að staðhæfingar ríkisstjórnarinnar gengju.

Sitthvað er þó mjög ábyrgt hjá þessum greiningaraðilum og ég ætla að vitna í yfirlýsingu frá greiningardeild eins bankans, þ.e. Landsbankans, en hér segir, með leyfi forseta:

„Með því að lækka skatta í jafnmiklum mæli og nú hefur verið ákveðið liggur fyrir að ríkið verður að skapa hagstjórnaraðhald með mjög miklu aðhaldi á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Að öðrum kosti kynda ríkisfjármálin undir eftirspurnina og bjóða þannig heim hættunni á vaxandi þenslu. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að meginþungi skattalækkananna verður í lok núverandi kjörtímabils, þegar gera má ráð fyrir að efnahagsuppsveiflan verði um garð gengin. Ef koma á í veg fyrir hækkun vaxta og styrkingu krónunnar er nauðsynlegt að trúverðugar áætlanir verði lagðar fram um niðurskurð útgjalda áður en ráðist er í niðurskurð tekna.“

Er þetta ekki mergurinn málsins? Það er verið að segja við ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann hér: Ef þið ætlið að skerða tekjur hins opinbera verðið þið jafnframt að koma með tillögur um það hvernig þið ætlið að mæta tekjutapinu. Þetta eru greiningardeildir bankanna að segja.

Varðandi vextina erum við þegar farin að sjá áhrifin af stóriðjuframkvæmdunum og varnaðarorðin varðandi skattalækkunina hníga í nákvæmlega sömu átt. Stýrivextir Seðlabankans voru hækkaðir í síðustu viku um eitt prósentustig og í kjölfarið fylgdi almenn vaxtahækkun í landinu. Á hverjum bitnar þetta verst og mest? Á fjölskyldum, skuldugu fólki og fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum. Hvers vegna? Vegna þess að þau fjármagna lán sín innan lands á meðan aðrir aðilar eru iðulega með sín fjármál í útlandinu.

Síðan er eitt sem við þurfum að hugleiða. Ríkisstjórnin réttlætir skattalækkanir sínar og skattalækkunaráform í ljósi hagsveiflu sem þó er talin vera tímabundin. Menn vísa þar í stóriðjuframkvæmdirnar, í tímabundna uppsveiflu í efnahagslífinu, tímabundinn hagvöxt. Þetta er hins vegar afskaplega varasamur vegvísir tel ég vera vegna þess að þegar við ákveðum skattstigið í þjóðfélaginu verðum við að taka mið af langtímaþróun og láta ekki glepjast af tímabundnum sveiflum í efnahagslífinu. Ef við færum skatthlutfallið niður varanlega og jafnframt dregur úr hagvexti síðar meir því að það skiptast á skin og skúrir í efnahagslífi þjóðanna, það er bara staðreynd, sitjum við uppi með skattstig sem skilar ekki þó því inn í hagkerfið sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gumar af, þ.e. veltuáhrifunum. Þau eru horfin en við sitjum eftir með lægra skattstig og þar af leiðandi skerta samfélagsþjónustu og aukin notendagjöld. Þetta er veruleikinn sem blasir við og þess vegna segi ég: Tímabundin hagsveifla, tímabundinn uppgangur í efnahagskerfinu er varasamur vegvísir. Við þurfum að hugsa þessi mál til mun lengri tíma.

Ég gat um það áðan hver áhrifin af þessum skattkerfisbreytingum væru fyrir fólkið í landinu, annars vegar fyrir hátekjufólkið sem hagnast verulega og hins vegar fyrir lágtekjufólkið og millitekjufólkið sem eykur ráðstöfunartekjur sínar mun minna nema að sönnu þeir sem eru með börn á framfæri og fá hækkun barnabóta. Þar koma til kjarabætur en þar minni ég hins vegar aftur á samhengið á milli skertrar samfélagsþjónustu og aukinnar byrðar af völdum notendagjalda og þessarar aukningar ráðstöfunartekna hins vegar. Það sem skiptir þó kannski meira máli eða er öllu heldur enn meira sláandi er hvernig hinir ríku hagnast á afnámi eignarskattsins. Þar er hópur sem hagnast verulega á honum. Þeir sem eiga skuldlausa fasteign á bilinu 50–100 millj. kr. greiða að meðaltali 385.749 kr. í þennan skatt. Þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. greiða sem nemur að meðaltali 895.187 kr. í eignarskatt. Þetta er veruleg kjarabót. Mér finnst ekki, okkur finnst ekki ástæða til þess að létta þarna byrðunum. Þess vegna höfum við ákveðið að flytja í sameiningu, stjórnarandstaðan eins og formaður Samfylkingarinnar gat um áðan, tillögu um að lyfta frítekjumörkunum þannig að fleira fólk og lágtekju- og meðaltekjufólkið sleppi við eignarskattinn en stóreignaskattur verði hins vegar ekki afnuminn. Hér kallaði einhver fram í áðan og sagði: Er þetta ekki gott fyrir þá sem eru í eigin húsnæði? (Gripið fram í.) Jú, það er gott fyrir alla í þeim skilningi að losna við skatta, að sjálfsögðu. Allir vildu það ef þeir einblíndu á þetta eitt en það sem um er að tefla er sú spurning hvernig við innheimtum skatta á sem réttlátastan hátt. Við ætlum að ná í skattana áfram, við ætlum að reka hér velferðarsamfélag. Þá er spurningin að finna út hverjir það eru sem eru aflögufærir og hverjir ekki. Þá gagnast ekki að segja um alla skattheimtu: Ja, er ekki gott fyrir þennan að sleppa við skatta? Jú, að sjálfsögðu. Við erum hins vegar í pólitískri umræðu um það hvernig við dreifum sköttunum á sem réttlátastan hátt niður á samfélagið.

Aðeins orð um áhyggjur sveitarfélaganna. Þau benda á að í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga renni visst hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs, 2,12% held ég að það sé. Ef dregur úr skatttekjum ríkissjóðs minnkar sú upphæð sem rennur inn í jöfnunarsjóðinn. Samkvæmt áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga nemur þessi upphæð, þessi skerðing, um 400 millj. kr. Ég vek athygli á því að öll þessi mál þarf að skoða í víðu samhengi vegna þess að skattbreyting á einum stað hefur áhrif á skatta að öðru leyti og við tökum undir áhyggjur Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað þetta varðar.

Síðan hefur verið bent á það í álitsgerðum verkalýðssambandanna sérstaklega að viðmiðunarupphæðir frumvarpsins, svo sem sjómannaafsláttur, viðmiðunarupphæðir eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta eru miðaðar við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Ef við hins vegar styðjumst við verðbólguspá fjármálaráðuneytisins má búast við að verðbólgan verði talsvert umfram þessar umsömdu launahækkanir og það veldur því að að öllu óbreyttu munu þessar viðmiðunarupphæðir rýrna á tímabilinu. Hér ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það í sjálfu sér en vitna í greinargerð sem fylgir minnihlutaálitinu en þar eru m.a. greinargerðir frá ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum eldri borgara og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vil nefna það í þessu sambandi af því að ég gleymdi að geta um það áðan að eldri borgarar fagna því í sjálfu sér að eignarskatturinn skuli vera afnuminn en benda á að það gerist í áföngum og að jafnframt því sem menn feti sig út á þessa braut hafi fasteignamatið verið hækkað verulega þannig að í rauninni sé ekki um að ræða kjarabót í þeim skilningi af völdum lækkunar eignarskattsins á fyrri stigum vegna þessa samspils. Ég vísa í greinargerð sem fylgir. Ég tel að varðandi barnabæturnar þurfum við að taka það kerfi allt til skoðunar. Hækkunin þar kemur ekki af fullum þunga fram fyrr en undir lok kjörtímabilsins og ég tel að við þurfum að skoða það kerfi heildstætt áður en til kastanna kemur og einnig vaxtabæturnar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við þurfum að fara inn í nýtt kerfi þar, húsnæðisbótakerfi þar sem við drögum úr þeim mun sem er á milli vaxtabóta annars vegar og húsaleigubóta hins vegar og búum til nýtt húsnæðisbótakerfi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég hef rakið helstu þætti sem fram koma í greinargerð minni en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að gera síðar frekar grein fyrir sjónarmiðum mínum.