Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:10:47 (3119)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:10]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir, sem er alveg hárrétt, að Vinstri grænir séu sjálfum sér samkvæmir. Við sjálfstæðismenn erum að uppfylla loforð okkar og við erum mjög hreykin af því. Það er hægt vegna þess hve vel hefur verið haldið á efnahagsmálum þessa lands undanfarin ár. Þetta verða stórkostlegar breytingar sem koma munu öllum til góða.

Að meðaltali mun kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna í landinu hækka um 4,5% en hjá barnafólki með lágar eða meðalháar tekjur verður hækkunin mun meiri. Afnám eignarskatts hefur þýðingu fyrir fjölda fólks. Mestur er þó ávinningur þeirra sem eiga skuldlausar eignir. Ég vildi gjarnan óska Þuríði Pálsdóttur til hamingju, sem barðist árum saman fyrir afnámi eignarskattsins. Það má taka dæmi af einstaklingi sem einungis hefur ellilífeyri, um 1 millj. kr. í tekjur á ári og býr í skuldlausri eigin íbúð sem kostar um 20 millj. Eftir þessar breytingar leggst ekki á hann skattur. Árleg aukning ráðstöfunartekna verður 133 þús. kr. eða 16%.