Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 14:30:22 (3148)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:30]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alltaf jafnhissa á hugrekki hv. framsóknarmanna að þora að fara í ræðustól og ræða um barnabætur miðað við fortíð þeirra í þessum málum. Hverju eyddum við í barnabætur á árinu 1995, á föstu verðlagi miðað við verðlag í ár? 6,4 milljörðum. Hverju eyðum við í barnabætur á þessu ári? 5,4 milljörðum, milljarði minna. Samt var efnahagsástandið verra þá en það er núna og sem hlutfall af landsframleiðslu var þetta miklu hærra en er nokkurn tíma núna. Þetta eru staðreyndir málsins.

Hv. þingmaður getur ekki gengið fram hjá þeirri fortíð núverandi ríkisstjórnar að hafa hlunnfarið barnafólk um 10 milljarða í barnabótum frá árinu 1995. Þegar við horfum á ótekjutengda hlutann sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, hlutann sem allir fá, var hann 56% af útgjöldunum en er núna ekki nema 19%. Þetta hefur verið svo mikið tekjutengt og 1997 eða 1998 voru engar ótekjutengdar bætur. Tekjutengingin var svo svakaleg. Og það var verkalýðshreyfingin sem ýtti ríkisstjórninni í að breyta því að fólk fengi barnabætur og að þær væru ekki svo mikið skertar þannig að allir fengju einhverjar. Þetta eru staðreyndir málsins og þær breytingar sem hér er verið að gera er að einungis er verið að skila fjórðungi af því til baka sem fólk hefur verið hlunnfarið um í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar við skoðum hvernig verður þegar þær loksins verða að fullu komnar til framkvæmda, hversu mikið fer í tekjutengda hlutann, er það bara sambærilegt og er í dag. Ég vil fá að spyrja hv. þingmann: Samþykkti hún það virkilega í þingflokki sínum að setja breytingar á barnabótum aftar í röðina en lækkun á tekjuskatti? Samþykkti hv. þingmaður að ekki ætti að skila þessum fjórðungi til baka fyrr en á árunum 2006 og 2007?