Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 14:42:33 (3155)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:42]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á stundum dálítið bágt með að átta mig á málflutningi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Sérstaklega var eitt atriði sem ég hnaut um í ræðu hennar áðan. Það varðar barnabæturnar og vilja hennar til að auka ótekjutengdar barnabætur.

Nú eru alveg sjónarmið fyrir því að auka ótekjutengdar barnabætur og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Það kom mér hins vegar á óvart að í ræðunni gat hún þess jafnfamt að ríkisstjórnin væri að gera vel við þá sem betra hefðu það í samfélaginu með því að auka hlut ótekjutengdra barnabóta. Þarna er bara um að ræða rökrétt samhengi. Ef ótekjutengdar barnabætur eru hækkaðar kemur það auðvitað þeim til góða sem eru með háar tekjur af því að þeir lenda ekki í tekjuskerðingu fyrir vikið. Það verður að vera eitthvert samræmi í þessu. Ef menn eru hliðhollir ótekjutengdum barnabótum verða þeir að standa við það og vera þá ekkert að kvarta yfir afleiðingunum af því að tekjutenging er minnkuð.

Varðandi tekjutenginguna er náttúrlega rétt að hafa það í huga í þessari umræðu að tekjutengingin bítur frekar á tímabili eins og hefur verið undanfarin ár, þegar um er að ræða einhverja mestu tekju- og kaupmáttaraukningu almennings í landinu sem við þekkjum. Þá minnkar þörfin fyrir bæturnar vegna þess að tekjurnar eru að aukast og þegar tekjutenging er fyrir hendi hefur það áhrif.

Varðandi vaxtabæturnar vil ég bara geta þess að það hefði verið ágætt ef hv. alþingismaður Jóhanna Sigurðardóttir hefði rifjað upp meira af því sem prófessor Eiríkur Tómasson sagði í áliti sínu á síðasta ári, ekki bara rifjað upp varnaðarorð hans í lokin heldur líka getið þess að hann taldi allar líkur á því að sú breyting sem þá var fyrirhuguð stæðist.