Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:02:42 (3160)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:02]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur hefur verið tíðrætt um það í dag að Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin séu að forgangsraða rétt. Í andsvari í dag orðaði hún það þannig að þetta væri aldeilis forgangsröðun í lagi.

Mig langar að lýsa mig aldeilis ósammála því, vegna þess að ég tel að verið sé að fara afar óréttláta leið og langar að taka dæmi um hina svokölluðu réttu forgangsröðun Framsóknarflokksins.

Mig langar að taka dæmi um lækkun tekjuskatts um 1% á næsta ári. Ég á vinkonu sem er með um 150 þús. kr. á mánuði. Hún er einstæð móðir eins og ég nema ég sit á þingi. Skattalækkunin mun færa mér sjö sinnum hærri upphæð á ári í auknar ráðstöfunartekjur, sjö sinnum hærri upphæð á ári en einstæðri móður með 150 þús. kr. á mánuði.

Virðulegi forseti. 150 þús. kr. einstæða móðirin mun fá óverulega upphæð á ári í auknar ráðstöfunartekjur verði þessi leið farin. Einstæð móðir sem situr á þingi mun hins vegar fá verulega upphæð, eða sem nemur góðri utanlandsferð árlega.

Hér hefur mikið verið rætt um barnabætur. Þá skyldi maður ætla að 150 þús. kr. einstæða móðirin fengi einhverja bót mála sinna þar, en það verður ekki gert fyrr en árið 2006 og 2007. Þá mun einstæða móðirin með 150 þús. kr. aðeins fá 65% af þeirri aukningu sem breytingin skilar sér til einstæðrar móður sem situr á þingi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er þetta í alvöru forgangsröðun í lagi í augum hennar?