Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:06:30 (3162)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:06]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá hópur sem ég var að tala um er hópur sem ég og hv. þm. Dagný Jónsdóttir tilheyrum báðar en það er hópur ungs fólks sem er talsvert skuldsett. Sá hópur greiðir ekki eignarskatta, sú breyting mun ekki koma honum til góða.

Hins vegar vil ég ítreka enn og aftur að það er skoðun mín að það sé óréttlát leið að fara þannig að skattalækkun í samfélagi þar sem bilið milli hina efnaminni og hinna efnameiri fer stöðugt breikkandi, það sé ósanngjörn leið að einstætt foreldri sem situr á Alþingi Íslendinga fái sjö sinnum meira út úr skattalækkun ríkisstjórnarinnar en einstæð móðir með 150 þús. kr. og fái að auki 35% meira út úr breytingum á barnabótakerfinu. Þetta þykir mér verulega óréttlátt og það er þetta sem ég vildi ræða við hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, þ.e. skuldsetta unga fólkið sem er í þeirri stöðu sem ég hef reifað.