Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:08:44 (3164)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:08]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var aðeins ein spurning sem mig langaði að leggja fyrir hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, sem er jafnframt varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar og landsbyggðarþingmaður eins og ég. Það er spurning um það hvort skoðað hafi verið innan efnahags- og viðskiptanefndar hvernig skattalegu áhrifin koma út fyrir alla Íslendinga. Þá á ég við: Var borið saman hvernig þetta kemur út fyrir höfuðborgarbúa á móti landsbyggðarbúum?

Það er mjög mikilvægt að fá þetta fram vegna þess að við tölum oft um að skoða hvernig lög koma fram fyrir sveitarfélög og því langar mig að spyrja eftir þessu. Var þetta skoðað? Erum við að lækka skatta sem gagnast öllum landsmönnum eða bara hluta þeirra?