Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 15:35:48 (3176)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:35]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður telur ástæðuna fyrir því að ég komi hér í pontu og ræði þessi mál vera þá að ég vilji hreykja mér af einhverjum hlutum. Hverjir hafa verið að hreykja sér af þessum skattaáformum í dag? Menn hafa talað um blóm í haga, grátandi hamingju, og svo má lengi telja. Er það Sjálfstæðisflokknum að þakka, virðulegi forseti, að nú sé rúm til að lækka skatta? Er það þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þakka að hér eigi að skapast rými til skattalækkunar? Þeir eru að hreykja sér af því á meðan kreditheiðurinn er hjá hinum vinnandi manni. Það er fólkið sem ég ræði við, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður talar um hagfræðina og atvinnuvegina. Ég leyfi mér að efast um hæfni hennar í hagfræði, virðulegi forseti, að því leyti að hún telur ekkert vera að í núverandi hagstjórn á meðan atvinnuvegunum í landinu blæðir út af bullinu sem er í gangi.

Seðlabanki Íslands setur ekki hömlur við innstreymi fjármagns til viðskiptabankanna í landinu. Íbúðalánasjóður skellir sér í eldhaf samkeppninnar á móti viðskiptabönkunum í landinu. Er þetta stöðugleiki? Er þetta yfirveguð hagstjórn, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Síður en svo.

Í lokin, virðulegi forseti, vil ég minna hv. þingmann á það að í ræðu minni deildi ég fyrst og fremst á framkvæmdina er varðar tekjuskattinn. Ég talaði um að eignarskatturinn og barnabæturnar væru góðra gjalda verð, svo það komi hér fram.