Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:12:13 (3189)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:12]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað geta þessir mismunandi hagsmunir eða mismunandi sjónarhorn mæst. Ég nefndi það áðan að ég kem úr stjórnmálaflokki þar sem hefur verið viðtækur stuðningur við velferðarþjónustu og samfélagsþjónustu af ýmsu tagi í áratugi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hlutföllin hafi farið aðeins úr jafnvægi. Ég er þeirrar skoðunar að hlutur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga í samfélagi okkar sé orðinn of mikill. Þess vegna er það mín pólitíska stefna að draga beri úr því eða a.m.k. að gera eins og gert er í fjárlögum og langtímastefnu í ríkisfjármálunum, hemja vöxtinn þannig að ekki sé endilega um að ræða niðurskurð frá rauntölum, heldur að draga úr hlutfalli.

Við erum að vinna að því núna, bara þannig að menn átti sig á því, að draga úr hlutfalli. Hugmyndin er ekki að samneyslan verði skert frá því sem nú er, heldur bara það að hún haldi ekki áfram að aukast meira en verg landsframleiðsla.