Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:13:39 (3190)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:13]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var út af fyrir sig ágætisræða hjá hv. þingmanni. Hann fór yfir sviðið eins og hann vildi hafa það, talaði dálítið abstrakt um það hvernig þingmenn kæmu hver á fætur öðrum með alls konar tillögur um útgjöld o.s.frv. en vegna styrkrar stöðu meiri hlutans á þingi kæmust menn ekkert upp með neina vitleysu.

Ég kom kannski fyrst og fremst hér upp í framhaldi af þessu til að benda á tvennt, ekki kannski beint til þess að svara hér fyrir þær hugmyndir sem Samfylkingin stendur fyrir. Hv. þingmaður auglýsti eftir hugmyndunum og þá er rétt að segja að fyrst og fremst er ágreiningur okkar við ríkisstjórnina sá að við teljum að nýta eigi skattkerfið til frekari jöfnuðar. Hv. þingmaður er ekki sama sinnis.

Hin athugasemdin sem ég hafði varðaði það að hv. þingmaður talaði mjög um það að við værum talsmenn þess að auka ríkisútgjöld um of. Ég vildi aðeins minna hv. þingmann á að hugmyndir okkar við afgreiðslu fjárlaga gengu út á að skila milljarði meira í afgang en ríkisstjórnin lagði upp með. (Gripið fram í.) Ég vildi bara leiðrétta þessa hluti. Auk þess hafa menn sett hér fram hugmyndir, af því að kallað er fram í, um að fækka mætti jafnvel í ríkisstjórninni.