Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:15:17 (3191)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:15]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að það voru sparnaðarhugmyndir af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar í sambandi við fjárlagaumræðuna. Einhvern veginn minnir mig samt sem áður, ég hef þetta ekki fyrir framan mig, að það hafi einkum verið ótilgreindar sparnaðarkröfur á ráðuneyti sem er tiltölulega auðvelt að setja fram rétt til þess að láta bækurnar líta vel út. En ég varð ekki var við að það væri mikið um konkret sparnaðartillögur nema kannski að því er varðaði einhver sendiráð.

Hins vegar hefur ekkert lát verið á því í þinginu að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi komið hér upp hver á fætur öðrum í fyrirspurnatímum, í umræðum um þingsályktanir og í umræðum um lagafrumvörp og lýst yfir stuðningi við nánast hverja einustu kröfu um aukin útgjöld af hálfu ríkisins sem fram hefur komið á síðustu missirum.

Svo koma menn vissulega upp og tala almennum orðum um aðhald og sparnað. Það sem skiptir máli í því sambandi er að menn séu þá tilbúnir til þess að taka á, að menn séu tilbúnir til þess að styðja raunverulegar hugmyndir um aðhald. Það getur verið erfitt vegna þess að það þýðir jafnframt að ekki er hægt að láta alla fá allt sem þeir óska eftir.

Varðandi stöðu Samfylkingarinnar í málinu finnst mér afstaða þeirra þingmanna sem hér hafa talað mótast nokkuð af því að Samfylkingin er ekki enn þá búin að ákveða hvort hún ætlar að vera hefðbundinn vinstri sósíalískur flokkur eða eitthvað sem hv. formaður þess flokks mundi kalla frjálslyndur jafnaðarmannaflokkur.